Ekki er til nein sérstök taska í forsætisráðuneytinu sem gengur undir heitinu „ríkisráðstaska“.
Samkvæmt upplýsingum fyrrverandi og núverandi embættismanna er allur gangur á því hvernig skjöl hafa verið borin til forseta til undirritunar. Þannig var lengi vel notast við pappakassa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Ekki er til sérstök taska í forsætisráðuneytinu sem merkt er eða einkennd sem „ríkisráðstaska““, segir í svari Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra og ritara ríkisráðs, er Morgunblaðið kannaði sögu og hefðir í tengslum við skjalatösku sem embættismenn ráðuneytisins höfðu með á Bessastaði þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hugðist leggja fram beiðni um þingrofsheimild.