Íslendingar gætu þurft á inngripi sérfræðinga að halda þar sem pólitíkin er skyndilega gengin af göflunum. Þetta segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í viðtali við þýska vefmiðilinn Spiegel Online. Hann segist ekki sjá annan kost í stöðunni en að ganga til kosninga.
Jón er spurður út í stöðuna í íslenskum stjórnmálum í kjölfar birtingar Panamaskjalanna en blaðamaður Spiegel segist nokkuð ruglaður um hver sé nú forsætisráðherra þjóðarinnar. Segist Jón hreinlega ekki viss sjálfur þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi virst draga afsögn sína til baka á þriðjudagskvöld. Hann er þá spurður hvað íslenska stjórnarskráin segi í tilvikum sem þessum.
„Ég veit það ekki. Líklega þurfum við á inngripi sérfræðinga að halda. Pólitíkin á Íslandi er skyndilega algerlega gengin af göflunum. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu. En ég sé eiginlega engan annan möguleika en nýjar kosningar,“ segir Jón.
Ástæðu reiði Íslendinga í garð Sigmundar Davíðs rekur Jón til þess að eftir að Panamaskjölin voru birt á sunnudag hafi fólk, eins og hann sjálfur, verið í áfalli. Viðbrögð stjórnmálamanna hafi gert illt verra en þeir hafi látið eins og þetta væri ekkert stórmál. Sigmundur Davíð hafi einnig áður þótt sérvitur. Hann hljómi stundum eins og hann sé í vörn og jafnvel vænisjúkur.
Þá segir fyrrverandi borgarstjóri að staðan á Íslandi sé sérstök út af gjaldeyrishöftunum. Forsætisráðherra hafi sagt þjóð sinni að standa saman og færa fórnir fyrir sameiginlegt markmið sem hann hafi svo ekki gert sjálfur. Á sama tíma og hann hafi sagt að það væri ekki gott fyrir landið að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru hafi hann fjárfest fé sitt í erlendri mynt. Þetta minni á Dýrabæ eftir Orwell þar sem öll dýrin séu jöfn, en sum séu jafnari en önnur.
„Ég útskýrði þetta svona fyrir tíu ára gömlum syni mínum: Þetta er eins og ef við hefðum ákveðið að spara á heimilinu og borða ekki pítsu í eitt ár heldur bara fisk. Síðan kæmist þú að því að ég væri búinn að fara að fá mér pítsu á laun á hverjum föstudegi,“ segir Jón við Spiegel.
Jón segir að sem borgarstjóri hafi hann vitað fyrir fram að hann kæmi til með að verða spurður flókinna og tæknilegra spurninga sem hann hefði ekkert svar við. Hann hefði því tekið þann pól í hæðina að svara hreinskilnislega að hann vissi það ekki.
Blaðamaður Spiegel spyr Jón þá hvort að Sigmundur Davíð hafi svarað í anda hans í viðtali við sænskan fréttamann sem spurði hann fyrst út í Panamaskjölin þegar hann sagðist ekki vita nákvæmlega hvernig viðskiptin við banka virkuðu.
„Nei, hjá mér var þetta aðferðafræði. Þetta var hugmynd um að viðurkenna veikleika. Ég held að þetta hafi gerst óvart hjá honum. En kannski var það líka lygi. Þetta er raunverulega ótrúlega fáránlegt. Mörgu fólki finnst þetta bara pínlegt,“ segir Jón eftir að hafa farið í hláturskast yfir spurningu blaðamannsins.
Jón er einnig spurður út í hvort hann sé ekki spenntur fyrir því að snúa aftur í stjórnmál.
„Jú, mér finnst það spennandi en núna er ég að gera sjónvarpsþátt,“ svarar Jón og vísar til þáttaraðarinnar „Borgarstjórans“.