Sígandi lukka best fyrir Íslendinga

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðlamenn á Bessastöðum. mbl.is/Eggert

Fyrstu viðbrögð við Kastljós-þættinum sem sendur var út á sunnudag voru áfall. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann segir að flestir hefðu gert sér grein fyrir að uppljóstranirnar í þættinum gætu valdið straumhvörfum.

Bjarni sagði í samtali við Ísland í dag að hann hefði haft það á tilfinningunni frá upphafi að málið myndi kalla á aðgerðir og breytingar. Honum hefði þó ekki komið til hugar að stjórnarsamstarfið væri komið á endastöð né að ganga til viðræðna við stjórnarandstöðuna um minnihlutastjórn.

„Nei, ég bara vinn ekki þannig,“ sagði hann. Það hefði verið mjög einfalt fyrir hann að komast að þeirri niðurstöðu að menn gætu treyst því að hann væri til staðar í samstarfinu á meðan það lifði og að reynt yrði til hins ítrasta að láta það ganga upp.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði enda ekki viljað að ríkisstjórnin færi frá.

Aðspurður sagðist Bjarni ekki hafa hugsað til þess að halda Framsóknarflokknum, einum helsta samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins sögulega séð, góðum vegna framtíðarhagsmuna.

Varðandi það að bjóða strax til kosningar sagði Bjarni að þingið þyrfti að standa sína plikt við aðstæður á borð við þær sem nú eru uppi og benti á að í Noregi væri einfaldlega ekki í boði að boða til kosninga. Hann sagði þörf á því að vinna að pólitískum stöðugleika.

Hann sagði að auðvitað ættu þingflokkarnir að vinna saman, ef það væri hægt. Slíkur vilji hefði hins vegar ytri mörk sem þingpólitíkin reyndi sífellt á. Spurður að því hvort hann væri sammála því að meiri heift ríkti á þingi nú en oft áður, sagðist hann ekki endilega finna fyrir því nema þá í sambandi við einstök mál.

Bjarni sagði mikla áskorun að framkvæma lýðræðið og það hefði verið mjög mikil lífsreynsla að gegna þingmennsku á síðustu árum. Þá talaði hann um að leita lausna á þeirri reiði sem ríkti í garð Alþingis.

Hann sagði að nú  hefði verið gripið til þess að stytta kjörtímabilið og hleypa kjósendum að kjörkössunum. „Kardemommubær“, þ.e. Alþingi, gæti líka orðið uppfullur af gleði og bjartsýni ef haldið yrði áfram á þeirri braut að þroska samfélagið í stað þess að kalla fram það versta.

Ráðherra sagði það vera lærdóm sinnar kynslóðar að skjótfengur ávinningur byggði oft ekki á góðum grunni. Sígandi lukka væri best fyrir Íslendinga.

Spurður að því hver væri munurinn á máli hans og máli Sigmundar Davíðs í sambandi við Panama-skjölinn, sagði Bjarni að þegar hann horfði yfir sviðið, ekki síst viðbrögð erlendis, væri það fyrst og fremst hagsmunaáreksturinn, þ.e. að Wintris, félag eiginkonu Sigmundar, ætti kröfur á gömlu bankana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert