Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ítrekaði á Alþingi í dag að baráttan gegn skattskjólum snerist um að ná í skottið á svikahröppunum. Þeim sem væru að fela eignir og komast undan því að greiða skatta. Um það snerist alþjóðlegt samstarf gegn skattaskjólum. Það snerist ekki um þá sem hefðu gefið allt upp og greitt af því skatta. Rifjaði hann upp þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefði gripið til í þeim efnum. Þar á meðal fjölda upplýsingaskiptasamninga við önnur ríki.
Ráðherrann beindi orðum sínum að Róbert Marshall, þingmanni Bjartrar framtíðar, sem fór hörðum orðum um stjórnarflokkanna og sagði þá ekki best til þess fallna að standa áfram að afnámi gjaldeyrishafta og öðrum hagsmunamálum þjóðarinnar. Gagnrýndi hann þau áform að kosningar yrðu boðaðar í haust í ljósi þess hvenær ríkisstjórnin hefði lokið ákveðnum verkefnum. Hótaði Róbert því að engum málum ríkisstjórnarinnar yrði hleypt í gegnum þingið.