Hyggst greina frá forsetafundinum síðar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í þinghúsinu í gærkvöldi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í þinghúsinu í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hefðu reynt að nýta sér pólitískan glundroða vikunnar á þágu eigin hagsmuna. Þetta sagði hann í samtali við Ísland í dag í kvöld.

Þingmaðurinn sagði að hann hefði orðið var við ýmsa tilburði, menn hefðu verið að meta hvernig hlutirnir myndu þróast og væru jafnvel tilbúnir til að fórna ekki bara honum heldur einnig formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir aðra hagsmuni.

Aðspurður um þessa „tilburði“ sagðist Sigmundur ekki vera að tala um fyrrverandi áhrifamenn innan flokksins.

Ráðherrann fyrrverandi var ítrekað spurður um fund sinn með forseta en sagðist myndu greina nánar frá fundinum og aðdraganda hans síðar.

Um þá ákvörðun að leggja til á þingflokksfundi Framsóknarflokksins að hann stigi til hliðar og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, yrði forsætisráðherra, sagði Sigmundur að hugmyndin hefði verið að athuga hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri þá ekki komin í þá stöðu að menn gætu ekki spilað út á málið af því að þeim byðist þessi möguleiki.

Sigmundur viðurkenndi í viðtalinu að hann hefði haft með sér pappíra á Bessastaði til að bregðast við tveimur möguleikum, en annar var þingrof. Hann sagði að fyrir sér hefði legið skýrt fyrir að það væri bara tvennt í stöðunni; annað hvort hygðust stjórnarflokkarnir verja ríkisstjórnina falli eða rjúfa þyrfti þing og boða til kosninga.

Fréttamaður Stöðvar 2 spurði Sigmund hvort hann gerði greinarmun á sínu máli og máli Bjarna Benediktssonar í tengslum við Panama-skjölin. Áður hafði fjármálaráðherra sagt að munurinn snérist ekki síst um hagsmunaárekstur forsætisráðherra vegna uppgjörs gömlu bankanna.

Sigmundur sagðist vel skilja að Bjarni vildi gera þennan greinarmun, sérstaklega þegar hann sjálfur væri búinn að segja af sér vegna málsins, en ef óánægja fólks væri aðallega til kominn vegna grundvallarprinsippa þá væri munurinn enginn.

Sagði hann ljóst að þegar stjórnmálamenn hefðu verið að bregðast við hruninu hefðu margir verið að verja eigin hagsmuni. Hann hefði hins vegar fórnað hagsmunum konu sinnar með framgöngu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert