Minjastofnun Íslands hefur kært niðurrif hins svokallaða Exeter húss til lögreglu fyrir brot á lögum um menningarminjar. En hver er saga hússins? Mbl.is fór á stúfana og kannaði málið.
Sjá frétt mbl.is: Minjastofnun mun kæra niðurrif Exeter hússins
Húsið að Tryggvagötu 12 var byggt árið 1904 af steinsmiðnum Júlíusi Schau en hönnuður hússins er óþekktur. Húsið var upphaflega byggt sem geymsluhús en árið 1909 voru gerðar endurbætur og því breytt í íbúðarhús. Húsið er upphaflega timburhús af dansk-íslenskri gerð. Í skýrslu Borgarsögusafns kemur fram að húsið hafi mikið gildi sem fulltrúi þess húsgerðar.
Frá árinu 1920 voru skrifstofur Fiskveiðihlutafélagsins Alliance skráðar í húsinu og jafnframt 10 íbúar. Tveimur árum síðar kviknaði í risi aðalhússins og skemmdist það nokkuð við austurgafl þess.
Árið 1931 var byggður kvistur á bakhlið hússins og var sá kvistur teiknaður af Pétri Ingimundarsyni. Var þá húsið nær allt undirlagt starfsemi Alliance. Fram til ársins 1978 stóð húsið nær alveg óbreytt. Það ár var húsið endurnýjað að fullu utan og innan. Gluggarnir voru flestir augnstungnir og húsið klætt með köntuðu stáli.
Árið 2000 voru gluggarnir endurnýjaðir og upphaflegri gluggagerð komið fyrir að nýju.
Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1983 og var útideildin í því til skamms tíma. Árið 2001 var starfræktur leikskóli í húsinu.
Steinsteypta geymslan sem stendur á lóð hússins var teiknuð árið 1913 af húsameistaranum Erlendssyni en hún er fyrst skráð til brunabóta árið 1920.
Húsið stendur við Tryggvagötu 12 en gatan er nefnd eftir Tryggva Gunnarssyni bankastjóra og Alþingismanni sem atkvæðamikill var í Reykjavík um aldamótin 1900. Varð gatan til á uppfyllingunni sem gerð var við hafnargerðina í Reykjavík 1913-1917 og nafn götunnar var samþykkt í bæjarstjórn árið 1923.
Árið 2001 ákvað Minjastofnun að setja húsið í svokallaðan Appelsínugulan flokk sem er flokkur fyrir hús byggð fyrir 1918 og eru því allar breytingar á þeim húsum háðar lögum um húsafriðun.
Sjá sögu hússins í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur.