Stjórnarandstæðingar á Alþingi fóru hörðum orðum um ríkisstjórnina í umræðum í kjölfar ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra. Gagnrýndu þeir harðlega þá ákvörðun stjórnarflokkanna að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi sínu.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagðist gjarnan vilja óska nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga góðs gengis en það gæti hún hins vegar ekki. Samflokksmaður hennar Björt Ólafsdóttir sagði nauðsynlegt að þjóðin gæti treyst þingmönnum. Hún treysti ekki ríkisstjórn sem treysti áfram Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra. Sagði hún að dramb væri falli næst og það væri það sem myndi gerast næst.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði ekki endalaust hægt að vísa í jákvæðar hagtölur. Þjóðin vildi ekki bara meiri peninga heldur siðbót og meiri völd. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar virtust ekki hafa lært neitt af atburðum síðustu daga.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinar - græns framboðs, sagði að tími ríkisstjórnarinnar væri liðinn og boða ætti til kosninga sem fyrst. Ríkisstjórnin nyti ekki trausts og breytingar á ráðherraskipan innan hennar breyttu því ekki.
Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá Alþingi.