Minni áfengisneysla en hörð kannabisneysla eykst

Stórlega hefur dregið úr áfengisneyslu 10. bekkinga á Íslandi en …
Stórlega hefur dregið úr áfengisneyslu 10. bekkinga á Íslandi en talsvert hefur fjölgað í hópi þeirra sem hafa mjög oft notað kannabisefni. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórlega hefur dregið úr áfengisneyslu 10. bekkinga á Íslandi en talsvert hefur fjölgað í hópi þeirra sem hafa mjög oft notað kannabisefni. Þetta kemur fram í gögnum frá Evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD - European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs) sem kynnt voru á Sálfræðiþingi í dag.

Ísland hefur verið þátttakandi í ESPAD-rannsókninni frá árinu 1995 og hefur henni verið stýrt af Háskólanum á Akureyri. Í gögnunum sem kynnt voru á þinginu var litið til breytinga á neyslu yfir 20 ára tímabil – frá árinu 1995 til ársins 2015. Í úrtakinu voru allir nemendur í 10. bekk, en þar af svöruðu 3.814 þegar hún var lögð fyrir 1995 og 2.336 árið 2015.

Hlutfall nemenda í 10. bekk sem aldrei höfðu notað áfengi jókst frá 20,8% árið 1995 í 65,5% árið 2015. Einnig varð fækkun í fjölda þeirra sem sögðust hafa neytt áfengis 40 sinnum eða oftar yfir ævina – úr 13,7% í 2,8% á þessu tuttugu ára tímabili.

Hlutfall nemenda í 10. bekk sem aldrei hafa drukkið áfengi …
Hlutfall nemenda í 10. bekk sem aldrei hafa drukkið áfengi eða notað kannabis.

Sömuleiðis varð aukning í hlutfalli þeirra sem sagðist aldrei hafa prófað kannabis úr 90,2% í 92,0%. Hinsvegar sást talsverð aukning meðal nemenda sem sögðust hafa notað kannabis 40 sinnum eða oftar yfir ævina, en þeir voru 0,7% af úrtakinu árið 1995 en 2,3% árið 2015. Engin munur sást milli kynja.

„Þetta er sérlega mikilvægt í kjölfar aukinnar umræðu um lögleiðingu kannabisefna þar sem mikil áhersla er lögð á kosti þeirra. Á sama tíma koma fram sífellt öflugri vísbendingar um hættuna sem getur fylgt slíkri neyslu hjá unglingum, til dæmis á að þróa með sér alvarlega og langvinna geðsjúkdóma eins og geðklofa,“ segir í fréttatilkynningu.

Hlutfall nemenda í 10. bekk sem hafa drukkið áfengi eða …
Hlutfall nemenda í 10. bekk sem hafa drukkið áfengi eða notað kannabis 40 sinnum eða oftar.

Fara í kannabis í gegnum áfengið

Þegar litið er á nýjustu gögnin kemur í ljós talverð skörun milli hópsins sem er í mestri áfengisdrykkjunni og þess sem er í hörðustu kannabisneyslunni. Alls tilheyrðu 42% fyrrnefnda hópsins einnig þeim síðarnefnda og aðeins 26% þeirra sem drukku oftast höfðu aldrei prófað kannabis. Aðeins einn einstaklingur í harðri kannabisneyslu sagðist aldrei hafa drukkið áfengi.

„Þetta bendir til þess að jafnvel þó áfengisneysla í þessum aldurshóp hafi minnkað mjög mikið þá liggur leiðin yfir í kannabis klárlega í gegnum áfengið,“ segir í tilkynningunni.

Þó verulega hafi dregið úr áfengisneyslu íslenskra unglinga á síðustu tveimur áratugum og færri þeirra segist hafa einhvern tímann prófað kannabis, þá hefur unglingum í mikilli kannabisneyslu fjölgað umtalsvert. Sé miðað við að í hverjum árgangi séu 4.400 einstaklingar hefur þeim fjölgað sem eru í mestu neyslunni úr 31 í 101.

„Þessi þróun kallar á sértæka forvarnarnálgun sem ætti að beinast að þessum hópi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert