Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir nýja ríkisstjórn munu reyna að endurheimta traust með því að láta verkin tala og koma til móts við kröfu almennings um nýja hugsun í fjármálakerfinu.
Þá verði stigin markviss skref til að „stórauka möguleika ungs fólks á að eignast húsnæði“. Sú áhersla muni meðal annars tengjast „húsnæðissparnaði og verðtryggingu“, segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Við höfum náð miklum árangri á síðustu þremur árum í stórum og mikilvægum verkefnum sem hafa skipt þjóðina miklu máli. Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri. Atvinnuleysi er komið niður í prósentur sem við þekktum áður. Spáð er áframhaldandi hagvexti á næstu árum. Allar efnahagslegar stærðir eru góðar. Við erum búin að lækka skuldir ríkissjóðs hratt vegna ákvarðana sem við höfum tekið. Og við ætlum að halda áfram á þessari braut og klára stór verkefni sem skipta þjóðina miklu máli. Það mun þýða að þeir sem hafa það lakast í samfélaginu munu hafa það betra. Þá nefni ég afnám hafta, lækkun skulda ríkissjóðs og húsnæðismálin sem skipta ungt fólk og leigumarkaðinn miklu máli.“