Hefðbundinn ágreiningur minni- og meirihluta

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hélt tæplega korters ræðu í umræðum um vantraust stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, á Alþingi í dag. Sagði hann ágreininginn milli stjórnar og stjórnarandstöðu núna skiptast í tvo flokka. Annars vegar um hvenær kosningar ættu að fara fram og svo ágreining milli stjórnar og andstöðu sem flokkaðist sem hefðbundin störf Alþingis sem hefði ekkert með lekamálið að gera.

Bjarni sagði í upphafi ræðu sinnar að óvenjulegt væri að ríkisstjórn með nýjan forsætisráðherra stæði frami fyrir vantrausti. Fór hann því næst yfir störf þingsins þegar kæmi að erfiðum ágreiningsmálum og sagði skoðun sína lengi hafa verið að þingið réði ekki við slík mál. Lausnin væri að auka völd forseta þingsins til að höggva á hnútinn.

Segir umsemjanlegt hversu langt niður þingmálalistann verður farið

Nefndi hann svo það mál sem núna hefur verið í gangi í vikunni og sagði það gott dæmi um stórt mál sem þingið stæði frammi fyrir. Sagði hann meirihlutann ekki vilja skola þessu kjörtímabili í ræsið og þeim málum sem unnið hafi verið að.

Bjarni sagði að öllum ætti að vera ljóst til hvaða stóru mála þessi ríkisstjórn horfði til og svaraði eigin spurningu um að það þyrftu ekki að vera öll málin sem færu í gegn fyrir næstu kosningar. Sagði hann að stjórnin og stjórnarandstaðan myndu ræða saman og sjá hversu langt væri hægt að ganga niður listann. Ítrekaði Bjarni að um væri að ræða sama grunn og sömu stefnumál og fyrri ríkisstjórnin hefði unnið að.

Þá rifjaði hann upp að ekki væri aðeins um að ræða eintók hugarefni stjórnarinnar, heldur væri meðal annars um að ræða samstarfið með vinnumarkaðinum að nýju vinnumarkaðsmódeli. Þá væri á lokametrunum frumvarp um ríkisfjármálaáætlun til 5 ára. Sagði hann þetta skipta miklu máli, jafnvel þótt hann gerði sér grein fyrir því að slík áætlun væri endurskoðuð hjá hverri ríkisstjórn. Þingið þyrfti þó að reyna að horfa til lengri tíma í þessum málum.

Bjarni fór einnig yfir þau mál sem tengjast aflandsfélögum. Sagði hann að hægt væri að koma á einhverskonar skýrslum fyrir þingið o.s.frv., en að fyrst og fremst þyrfti að treysta stofnunum landsins, svo sem ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra í þessu máli. Spurði hann þingmenn hvort þeir treystu þessum stofnunum ekki.

Spurning hvort kosningar verði í maí, september eða október

Bjarni sagði einnig að það væri ekki víst að allir væru sammála um hvað verkefnið væri. Í hans augum væri það að ná í skottið á svikurum sem ekki stæðu skil á sínum hlut. Ítrekaði hann að sjálfur hefði hann gefið allt sitt upp og ekki haft neitt að fela.Sagði hann hins vegar marga hafa nýtt sér aflandsfélög til að komast undan skattlagningu. Þá fór hann yfir bætur sem hefðu verið gerðar á þessum vettvangi undanfarin ár, allt frá 44 nýjum samningum um upplýsingaskipti við lágskattasvæði og svo upptöku á CFC löggjöf til að koma í veg fyrir skattleysi. Bjarni sagði verkefnið þó ekki að fullu klárað og að lekinn muni væntanlega ýta undir þessa vinnu.

Varðandi kosningar og virkjun lýðræðis á þessum tímapunkti sagði Bjarni að það væri ekki væri ágreiningur hjá neinum um kosti þess að virkja lýðræðið. Sagði hann aðeins spurningu vera hvort það væri gert í maí, september eða október.Allt annað sem væri ágreiningur um þessa stundina væri hefðbundin ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem flokkaðist undir störf þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka