Óttar Yngvason, hæstaréttarlögmaður og stjórnarmaður í Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf., segir að sér beri ekki skylda til að veita upplýsingar um tvo stærstu hluthafa félagsins.
Samkvæmt vefsíðu Samfylkingarinnar er aðalskrifstofa flokksins með aðsetur á 2. hæð á Hallveigarstíg 1.
Fram kemur í fasteignaskrá að eignarhald fasteignarinnar skiptist milli fjögurra aðila. Þeir eru Paras ehf., Reitir I ehf., Félagsbústaðir hf., og Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. og Sigfúsarsjóður, sem eiga 393 fermetra skrifstofuhúsnæði á 2. hæð.
Fram kemur í ársreikningi Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf. 2014 að Fjalar sjálfseignarfélag á 41,1% hlut, Fjölnir sjálfseignarfélag 40,66% hlut, Alþýðuflokkurinn – Jafnaðarmannaflokkur Íslands á 1,57% hlut og þrír stjórnarmenn eru með 1,18% hlut hver. Þeir eru Ásgeir Guðmundur Jóhannesson, Pétur Jónsson og Óttar Magnús Yngvason.
Félögin Fjalar og Fjölnir eru skráð með erlendar kennitölur og heimili í „öðrum löndum“. Þær upplýsingar fengust hjá Ríkisskattstjóra að félögin finnist ekki í skrám embættisins. Þá var bent á að hugtakið „sjálfseignarfélag“ sé hugtak sem Ríkisskattstjóri notar ekki.
Óttar segir það ekki réttar upplýsingar í ársreikningi félagsins 2014 að umrædd tvö félög séu erlend.
Hann vill hins vegar ekki veita upplýsingar sem staðfesti að það sé rangt, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.