Óráðlegt að boða til kosninga

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óróleiki á pólitíska sviðinu gæti grafið undan afnámi hafta og því er óráðlegt að ætla að boða til kosninga á lykiltíma í því starfi. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Alþingi í dag. Sagði hann óábyrgt að leggja vantraustið fram.

Umræður standa nú yfir um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þar er lagt til að þing verði rofið og boðað verði til kosninga.

Sigurður Ingi sagði það rösklega gert að leggja fram vantraust innan við sólahring eftir að ný stjórn hefði tekið við. Hann hafi talið að slíkar tillögur ættu að byggjast á því ríkisstjórn hafi ekki auðnast að ná markmiðum sínum. Farið hafi verið yfir verk síðustu ríkisstjórnar og núverandi stjórn sé á sömu braut. Vísaði hann til afgreiðslu mikilvægra mála þar sem afnám hafta bæri helst.

Biðlaði forsætisráðherra til stjórnarandstöðunnar um að láta ekki sitt eftir liggja í að greiða leið þess í gegnum þingið. Verkefnið að afnema höft væri umfangsmikið og úrlausn þess kæmi til með að hafa áhrif til langrar framtíðar.

Yrði vantraust samþykkt á ríkisstjórnina myndi það leiða til kosninga innan 45 daga. Fyrst væri hægt að kjósa um miðjan maí, á svipuðum tíma og boðað útboð á gjaldeyri vegna losunar hafta á að fara fram. Sagði Sigurður Ingi litla skynsemi í að standa í kosningabaráttu á sama tíma og staðið væri í úrlausn vandasamasta viðfangsefnis sem þjóðin hafi staðið frammi fyrir. Þá taldi hann nálægðina við forsetakosningarnar í sumar ekki heppilega.

Sagðist hann undrandi á að stjórnarandstaðan vilji leggja í þá för þegar svo mikið sé undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert