Vantraust þjóðarinnar liggur fyrir

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn getur neitað því að vantraust þjóðarinnar á stjórnmálum liggur fyrir, sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, þegar hann mælti fyrir vantrausti á nýja ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar á fyrsta starfsdegi hennar. Vantraustið byggi á alvarlegum vanda í íslenskum stjórnmálum sem allir þekki eftir atburði síðustu daga.

Árni Páll fullyrti að tilgangur með aflandsfélögum sé aðeins að leyna eignarhaldi eða forðast skattheimtu. Í glímu við eftirleik hrunsins hafi verið óskað eftir því að þeir sem eigi fé erlendis komi með það heim til að styðja við endurreisn Ísland. Því sé það óafsakanlegt og ósamræmanlegt stjórnmálastörfum að eiga aflandsfélög.

Lýsti formaðurinn því að þjóðin hafi ekki upplifað viðlíka sorg og skömm frá hruni og þá sem hún hefur upplifað eftir uppljóstranir um aflandsfélagaeign ráðherra í ríkisstjórn. 

„Panamaskjölin eru ekki eitthvað hefðbundið íslenskt klúður, þar sem ráðamenn þrasa við gagnrýnendur um efnisatriði mála, ásaka fjölmiðla um ofsóknir, túlka staðreyndir í þessa átt eða aðra eða halda því fram að allt annað eigi að eiga við um þá en alla aðra. Í þetta sinn erum við öll í beinni og það er engin leið að fela sig undan kastljósi heimsins. Engin leið að reyna að halda því fram að önnur viðmið gildi hér en í öðrum löndum,“ sagði Árni Páll.

Vísaði hann til fjölmennra mótmæla síðustu daga sem hann sagði sýna þverskurð þjóðarinnar. Mótmælendur hafi kallað eftir siðbót í stjórnmálum.

Sjálfur sagðist hann hafa setið á ráðherrastóli og hlustað á þúsundir mótmæla stefnu sinni og ríkisstjórnarinnar sem hann sat í en verið sannfærður um að hann hefði rétt fyrir sér. Allir hlytu á endanum að sjá það. Afleiðing þess hafi verið stærsta pólitíska tap Íslandssögunnar.

Í vantrauststillögunni sagði Árni Páll felast útrétt hönd um betri samskipti flokkanna á nýjum forsendum. Með stjórnarskiptunum hafi stjórnarflokkarnir viðurkennt að umboð þeirra væri brostið en þeir hafi ekki gengið nógu langt. Um það vitni viðbrögð samfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert