Austurvöllur fullur af fólki

Mikill fjöldi fólks er nú á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórn Íslands. Hafa margir tekið með sér potta, pönnur og mótmælaskilti auk þess sem nokkrir slá á trumbur.

Fjöldi fólks streymir nú í átt að miðbænum að sögn ljósmyndara mbl.is sem er á vettvangi en yf­ir­skrift mótmælanna er „Kosn­ing­ar strax - rík­is­stjórn­ina burt.“

Arnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að nú, laust fyrir klukkan 15, séu um 5.500 manns á Austurvelli og „mikið streymi“ inn og út af svæðinu.

Búið er að setja upp svið á Aust­ur­velli og munu hinir ýmsu tónlistarmenn koma þar fram. Meðal þeirra sem flytur ávarp er Ill­ugi Jök­uls­son rit­höf­und­ur og er fund­ar­stjóri Sig­ríður Bylgja Sig­ur­jóns­dótt­ir.
Á skiltum mótmælenda stendur meðal annars; „Hvar er stjórnarskráin“, „Bring it on“, „Mennska framtíð“, „Réttlæti en ekki ranglæti“, og „Þjóðníðingar - SDG+BB“.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með nokkurn viðbúnað vegna mótmælanna en lögreglumenn hafa að mestu haldið sig til hlés.

Fylgst verður með mót­mæl­un­um á mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert