Ráðamenn í Pyongyang segjast hafa prófað nýja tegund eldflaugahreyfils með góðum árangri, en hann er sagður sérstaklega hannaður fyrir kjarnorkueldflaug.
Fréttaveita AFP greinir frá því, og vitnar í stjórnvöld í Norður-Kóreu, að með þessum nýja hreyfli sé hægt að „tryggja“ kjarnorkuárás á meginland Bandaríkjanna.
Stjórnvöld í Pyongyang hafa að undanförnu verið iðin við að senda frá sér alls kyns yfirlýsingar er varða kjarnorkutilraunir þeirra. Hafa þeir t.a.m. sagst hafa sprengt vetnissprengju með góðum árangri á Punggye-ri-kjarnorkutilraunasvæðinu í Norður-Kóreu á síðasta ári. Sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum vestanhafs hafa hins vegar dregið margar af fullyrðingum Norður-Kóreu í efa, m.a. þá er snertir fyrrgreinda vetnissprengju.
KCNA, ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, segir Kim Jong-Un, leiðtoga landsins, hafa gefið skipun um að prófa eldflaugahreyfilinn. Er leiðtoginn sagður hafa hrósað mjög hinum nýja hreyfli og bent á að með honum megi gera harða árás á Bandaríkin.