„Kominn tími á Píratana“

„Menn geta þrasað um eðlismun en hann er líka á listanum og verður að fara,“ segir karlmaður um fertugt sem er mættur með pott á Austurvöll. Hann vill Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra frá og margir aðrir viðmælendur mbl.is eru sama sinnis.

Það er kominn tími fyrir ríkisstjórnin að endurnýja umboð sitt, segja þeir. Sumir vilja þá ráðamenn sem tengst hafa aflandsfélögum burt en flestir vilja kosningar; „hreinsa til á þingi“.

Að sögn blaðamanns er hópurinn sem samankominn er á Austurvelli fjölbreyttur en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu telur hann um 6.000.

Formlegri dagskrá er nú lokið en fólk tók vel undir ræður, og barði í potta og pönnur til að lýsa velþóknun sinni. Margir veifa rauðum spjöldum á lofti.

Lögregla hefur ekki séð tilefni til að girða kringum Alþingishúsið, taldi ekki þörf á því, enda fara mótmælin friðsamlega fram og stemningin „almennt þægileg“.

„Ég vil bara burt með alla þessa sem eiga fé í aflandsfélögum,“ segir Aðalbjörg Karlsdóttir. „Mér finnst vera kominn tími á Píratana. Ég veit ekki hvort þeir muni standa sig betur en mér finnst kominn tímí að fá eitthvað ferskara afl inn í íslensk stjórnmál.

Aðalbjörg Karlsdóttir.
Aðalbjörg Karlsdóttir. mbl.is/Anna S

„Við erum hér til að mótmæla spillingu,“ segir Guðrún Lilja Guðmundsdóttir, sem stödd er á Austurvelli ásamt vinkonum. „Að fjármálaráðherra skuli vera búinn að vera með eignir í skattaskjóli á sama tíma og hann er að reyna að afla tekna í ríkiskassann; mér finnst það bara ömurlegt.“

Guðrún Lilja Guðmundsdóttir.
Guðrún Lilja Guðmundsdóttir. mbl.is/Anna S

Hópurinn er sammála um að boða þurfi til kosninga.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka