Stjórnin stæði saman eða félli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, við Bessastaði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, við Bessastaði. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, hafði valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins í huga þegar hann gekk á fund herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sl. þriðjudag með forsetabréf um þingrof meðferðis.

Sigmundur Davíð segir það rangt sem haldið hafi verið fram að hann hafi ætlað að nota forsetabréfið sem vogarafl í samningum við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um viðbrögð við þeirri stöðu sem upp var komin eftir umfjöllun um Panamaskjölin og tengingu forsætisráðherrans við þau.

Túlkun í þessa veru birtist í þeim orðum Ólafs Ragnars á blaðamannafundi sama dag, er hann greindi frá þeirri ákvörðun að undirrita ekki forsetabréfið, að ekki væri við hæfi að nota forsetaembættið sem vopn í pólitískum aflraunum.

Sigmundur Davíð kveðst hafa fylgst náið með samstarfsflokknum.

„Formaður Sjálfstæðisflokksins hafði verið erlendis um alllangt skeið meðan á öllu þessu stóð, hafði ekki komist til landsins á tilsettum tíma. Við höfðum ráðgert að hittast um leið og hann kæmi. Í millitíðinni, á meðan hann var erlendis, hafði ég auðvitað fylgst mjög náið með gangi mála í stjórnarliðinu, og ekki hvað síst gætt þess að fylgjast með því hvernig hlutirnir væru að þróast í Sjálfstæðisflokknum, eftir þeim leiðum sem maður hefur til þess.“

mbl.is/Eggert

Þýðir að stjórnin sé fallin

„Ég hafði líka orðið þess áskynja að í opinberum yfirlýsingum höfðu þingmenn flokksins og formaður ekki verið eins afdráttarlausir og vera ber í aðdraganda tillögu um vantraust og þingrof. Af því leiddi að ég mat það sem svo að það væri nauðsynlegt að gera mönnum grein fyrir því sem að mínu mati á ekki að þurfa að gera mönnum grein fyrir – og á að teljast sjálfsagður hlutur – að ef að þingmenn stjórnarliðs treysta sér ekki til að lýsa því afdráttarlaust yfir að þeir verji ríkisstjórnina vantrausti og þingrofsbeiðni að þá sé ríkisstjórnin í raun fallin.

Ég hafði farið yfir þetta með nokkrum fjölda sjálfstæðismanna í framhaldi af þessari eftirgrennslan minni um gang mála í Sjálfstæðisflokknum og hafði orðið þess áskynja – og reyndar heyrt það úr allmörgum áttum og haft á því að mínu mati ágæta yfirsýn – að í þingflokki sjálfstæðismanna væru menn að leggja ólíkt á mat stöðuna og að þar sæju sumir sér jafnvel hag í því að stjórnarsamstarfið héldi ekki áfram og það mætti verða til þess að stokka spilin upp á nýtt innan Sjálfstæðisflokksins.

Vegna þess að ef farið yrði í kosningar við þær aðstæður sem þá voru myndi það skapa tækifæri fyrir suma en vandamál fyrir aðra í Sjálfstæðisflokknum. Það var ekki bara upplifun mín heldur vissi ég til þess að það væri fólk í flokknum sem teldi að formaðurinn ætti að víkja úr ríkisstjórn, ellegar ætti að halda kosningar.“

Aðeins tveir kostir í stöðunni

„Við þessar aðstæður hitti ég formann Sjálfstæðisflokksins, hann kom nánast beint af flugvellinum, og ítrekaði það sem ég hafði sagt við hann, og aðra sjálfstæðismenn sem ég hafði verið í samskiptum við, að ég liti svo á að mönnum hlyti að vera ljóst að það væru bara tveir kostir í stöðunni. Annað hvort þjöppuðu menn stjórninni saman og segðu skýrt að þeir ætluðu allir sem einn að hafna þessari tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof og vantraust, eða stjórnin væri fallin og það yrðu því kosningar strax. Ég ítrekaði það mjög afdráttarlaust, að þetta væri mat mitt, það væru bara þessir tveir kostir.

Ég veit að aðrir höfðu velt fyrir sér hvort það kynni að vera hægt að vinna tíma með því að semja við stjórnarandstöðuna og sleppa þannig við vantrauststillögu. Slíkt taldi ég algjörlega óraunhæft. Ég taldi líka mjög mikilvægt, þegar þessi staða var uppi, að þessi afstaða mín væri ljós áður en þingflokkur sjálfstæðismanna tæki afstöðu til þess hvort hann vildi halda stjórnarsamstarfinu áfram.“

mbl.is/Eggert

Ítrekaði afstöðu sína

„Ég ítrekaði afstöðu mína við formann Sjálfstæðisflokksins [á fundinum að morgni þriðjudags], og upplýsti hann sérstaklega um það síðan símleiðis, að ég myndi gera grein fyrir því opinberlega að þetta væri afstaða mín, sem ég gerði síðan í Facebookfærslu, enda ekki tími til að bregðast við mörgum viðtalsbeiðnum fjölmiðla.

Ég leit ekki á þetta sem vopn gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins, heldur frekar nauðsynlegt vopn í hans höndum, til að geta gert sínum þingmönnum grein fyrir því, sem að mínu mati á að teljast sjálfsagður hlutur, að annað hvort standi menn saman um að verja ríkisstjórn, eða að hún sé fallin. Að þegar fyrir þinginu liggi tillaga um vantraust og að boðað skuli til kosninga verði stjórnarliðar að vera skýrir um það að þeir ætli að hafna slíkum tillögum, annars sé forsætisráðherra ekki í annarri stöðu en að boða til kosninga. Þetta er lykilatriði.“

Þyrfti þá ekki að bíða boðanna

„Ég fer svo og hitti forsetann og lýsi í rauninni sömu afstöðu og ég hafði lýst í þessari færslu. Að það væri afstaða mín að þetta væru tveir kostir sem væru fyrir hendi og að ef í ljós kæmi að í Sjálfstæðisflokknum væri vilji til þess að styðja tillögu stjórnarandstöðu um vantraust og þingrof þá væri engin ástæða fyrir forsætisráðherra að bíða boðana, hann ætti strax og slíkt væri ljóst að rjúfa þing.“

Sigmundur Davíð áréttar, í tilefni af blaðamannafundi Ólafs Ragnars á þriðjudaginn var, „að það sé alveg skýrt að hans mati að þingrofsheimildin sé á hendi forsætisráðherra“.

Ekki hægt að líta hjá hefðinni

„Ef menn eru ósammála um það að þá felst í því um leið að menn eru í grundvallaratriðum orðnir ósammála um hvernig túlka beri stjórnarskrá Íslands og ekki bara stjórnarskrána heldur um leið stjórnkerfi landsins. Menn eru orðnir ósammála um hvernig lýðræðið virki á Íslandi. Sé sú raunin þá býr það til mikil grundvallarálitamál sem nauðsynlegt er að ræða, en ég bendi á að fyrir hendi er áratuga saga af því hvernig stjórnarskráin og stjórnfyrirkomulag landsins hefur virkað. Framhjá þeirri hefð er ekki hægt að líta svo auðveldlega, né heldur væri það æskilegt með tilliti til sjónarmiða um lýðræði og grunngildi þess, enda hljóta menn, þrátt fyrir ágreining um margt í samfélaginu, um stjórnkerfið og fleira, að geta sammælst um það að valdið liggi hjá almenningi og þeim sem hafa lýðræðislegt umboð til þess að taka ákvarðanir í samræmi við bæði skrifaðar reglur og framkvæmd til áratuga. Ég læt þetta nægja af þessari frásögn í bili. Ég ætla að bíða eftir að fleira komi í ljós áður en ég upplýsi um það allt.“

mbl.is/Eggert

Ósammála túlkun forsetans

– Skilja mátti á Ólafi Ragnari að þegar tillaga um þingrof kemur upp beri forseta að ræða við að minnsta kosti alla fulltrúa stjórnarflokka um hvernig þeir meta stöðuna. Síðan beri honum að meta aðra kosti í stöðunni og eftir atvikum líka að ræða við stjórnarandstöðuna og horfa til þess hvernig landinu er þá stjórnað fram að kosningum sé þing rofið. Þá benti forseti á að það geti jafnvel tekið nokkra mánuði að mynda ríkisstjórn.

„Það voru reyndar gerðar breytingar á því 1991, ef ég man rétt, hvernig stjórn landsins er háttað ef forsætisráðherra kýs að rjúfa þing. Það er skýrt. Þar verða mennirnir, sem taka þátt í stjórnmálum, sama hvaða stöðu þeir eru í, að laga sig að leikreglunum en leikreglurnar ekki að laga sig að mönnunum.“

Verðskulduðu ekki viðbrögð

Föstudaginn 11. mars var tekið viðtal við Sigmund Davíð sem sýnt var í sérstökum Kastljósþætti um Panamaskjölin 3. apríl. Spurður hvers vegna viðbrögð hans við umræddu viðtali hafi ekki verið afdráttarlausari þegar hann greindi frá málavöxtum segir Sigmundur Davíð að hann hafi ekki viljað gera sjónvarpsmönnum sem beittu slíkum aðferðum svo hátt undir höfði. Sjónvarpsmennirnir hafi blekkt hann í viðtal á fölskum forsendum, sent falskar spurningar fyrirfram, og „á allan hátt staðið að málum á þann hátt að gera óskiljanlegt hvert verið væri að fara þegar allt í einu var farið að ræða persónuleg málefni hans“. Hann hafi samtímis áttað sig á að „öll framganga sjónvarpsmannanna hefði verið blekking og að tilgangurinn væri að hanka hann á einhverju“. Þá hafi komið fát á hann, enda hafi hann verið algjörlega ruglaður í ríminu og á sama tíma að átta sig á því að allar forsendur viðtalsins hefðu verið blekking og verið væri að fiska eftir einhverju. Svo hafi orðið ljóst að sjónvarpsmennirnir gerðu ráð fyrir að hann hefði verið að fela eignir fyrir skattinum.

Trúði ekki að svona færi

„Ég var reyndar búinn að skrifa samantekt um hvernig þetta allt hefði borið að, þetta viðtal, en tók svo ákvörðun um að vera ekki að lyfta þessari framgöngu með því að gera hana að umtalsefni að fyrra bragði. Ég trúði ekki að menn myndu ganga svo langt að nýta sér það atriði sem þarna hafði verið búið til, þegar búið væri að skýra að forsendurnar fyrir því að gengið var fram með þessum hætti væru ekki réttar. Það er að segja að þegar búið væri að skýra að sú ályktun sjónvarpsmannanna væri röng að þetta væri leynifélag sem ekki hefði verið gefið upp til skatts.“

Sigmundur Davíð segir aðstoðarmann sinn hafa sent sjónvarpsmönnunum upplýsingar um umrætt félag, Wintris (sjá grein hér til hliðar), í trausti þess að þær kæmu fram í umfjölluninni. Hann fullyrðir að sjónvarpsmennirnir hafi rætt við fleiri aðila, þar með talið í Lúxemborg, en tekið því illa þegar veittar voru upplýsingar sem studdu skýringar hans og eiginkonu hans en rímuðu ekki við þá mynd sem dregin var upp í þættinum. Blaðamaður ræddi við sérfræðing í erlendri fjármálamiðstöð, sem sjónvarpsfólk á RÚV ræddi við, sem sagði það ekki hafa haft áhuga á upplýsingum sem ekki studdu þeirra nálgun að málefninu.

RÚV hafi tekið afstöðu

Sigmundur Davíð segir aðspurður að „óhugsandi“ sé að „Ríkisútvarpið hefði tekið þátt í svona vinnubrögðum“ þegar hann starfaði þar í sjónvarpi til margra ára. Það er upplifun hans að RÚV hafi tekið afstöðu í málinu með umfjöllun sinni. Ætlunin hafi verið að setja viðmælandann í sem allra verst ljós með því að segja ekki alla söguna.

mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka