Vilja að þingið skipi rannsóknarnefnd

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins. mbl.is/Eggert

Þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi láti fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af Efnahags- og framfarastofnunni (OECD) og íslenskum stjórnvöldum.

Lagt er til að skipuð verði rannsóknarnefnd skipuð einstaklingum með sérþekkingu á alþjóðaviðskiptum, fjármálum og skattamálum sem skrái öll aflandsfélög, hvar sem er í heiminum, sem tengjast eða hafa tengst íslenskum aðilum.

Þá verði gefin út sérstök aflandsfélagaskrá yfir alla þá sem í hlut eiga þar sem fram komi nöfn hlutaðeigandi félaga og einstaklinga og upplýsingar um staðsetningu skattaskjólanna.

 Jafnframt ályktar Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stofna sérstakan rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattundanskot og aðra ólögmæta starfsemi, svo sem peningaþvætti, sem kunni að hafa átt sér stað með aflandsfélögum og byggist á upplýsingum og niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Rannsóknarhópurinn starfi með embættum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á þeim forsendum sem skattrannsóknarstjóri ákveður. Fjármálaráðherra- og efnahagsráðherra sjái til þess að veitt verði fé úr ríkissjóði til þess að kosta viðbótarstarfslið sérfræðinga og annars starfsfólks sem þarf að mati ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra til starfa fyrir rannsóknarhópinn og hlutaðeigandi skattyfirvöld,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a. að skattaskjól séu til þess fallin að viðhalda og auka misskiptingu auðs í heiminum og í þeim sé varðveittur ágóðinn af ýmis konar ólögmætri starfsemi sem bitnar á almenningi, s.s. vopna- og eiturlyfjasölu, vændi og mansali.

Skattaskjól grafa undan velferð og velgengni samfélaga sem sjá á eftir fé sem þar verður til inn í þessi svarthol.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka