Engin hótun í tímasetningu kosninga

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ekki er búið að nefna dagsetningu fyrir kosningar í haust vegna þess að menn átta sig ekki á hversu langan tíma tekur að ljúka mikilvægum málum, að sögn Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Klárist málin seint seinki kosningum en í því felist engin hótun.

Fjölmenn mótmæli voru á Austurvelli í gær en lögregla telur að um sex þúsund manns hafi verið fyrir framan Alþingishúsið þegar mest lést. Krafa mótmælenda var að ríkisstjórnin víki og að boðað verði til kosninga strax.

Gunnar Bragi segir að fólki sé að sjálfsögðu frjálst að mótmæla og það sé réttur þess. Ríkisstjórnin ætli sér hins vegar að klára ákveðin verkefni áður en kosið verður.

„Það er eitthvað sem skiptir miklu máli að okkar mati fyrir framtíðina og fyrir þjóðina að við klárum þessi verkefni. Það er það sem við ætlum okkur að gera,“ segir ráðherrann sem telur að ríkisstjórnin muni fá frið til þess.

„Stefna að því“ að hafa kosningar í haust

Þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti nýja ríkisstjórn í stiga í Alþingishúsinu á miðvikudagskvöld virtist hann skilyrða tímasetningu kosninga í haust við að ríkisstjórnin næði að klára þingmálalista sinn. Í umræðum um vantraust á ríkisstjórninni á föstudag sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að kosningar gætu tafist ef ekki náist samstaða á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mikilvægra mála.

Gunnar Bragi segir að ástæðan fyrir því að engin dagsetning fyrir kosningar hafi verið nefnd sé sú að menn átti sig ekki alveg á hversu langan tíma þurfi til að klára málin. Mikilvægt sé að klára þau áður en kosið verður. Miðað sé við að hægt verði að kjósa í haust.

„Ég get ekki svarað því á annan hátt en að menn stefna að því að hafa þessa kosningu. Ef menn ná að klára málin snemma þá verður kosið snemma. Ef menn klára seint þá seinkar það kosningum. Það er bara svoleiðis. Í því felst engin hótun. Það er bara eitthvað sem allir hljóta að sjá,“ segir Gunnar Bragi spurður að því hvort að mögulegt sé að ekki verði kosið í haust.

Frá mótmælum gegn ríkisstjórninni á Austurvelli í gær.
Frá mótmælum gegn ríkisstjórninni á Austurvelli í gær. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert