Forsetaefni afsprengi pólitísks umróts?

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í pólitískum hasar vikunnar gæti orðið óvænt hliðarverkun. Þriðjudaginn örlagaríka þann 5. apríl voru sjónvarpsstöðvarnar með beinar útsendingar meira og minna yfir daginn. Það fólk sem þangað kom til að veita faglegt álit sitt á ýmsu sem tengdist pólitíkinni varð óvænt eftirsótt sem mögulegir forsetaframbjóðendur og einn þeirra hefur lofað að hugsa málið.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur var í fréttasettinu hjá RÚV í fréttatímanum sem sýndur var strax að loknu Kastljósi síðastliðinn sunnudag. Viðbrögð hans vöktu mikla athygli, honum var sýnilega afar brugðið eftir að hafa horft á þáttinn og leyndi því ekki fyrir áhorfendum. Síðan átti hann eftir að vera í nokkuð stóru hlutverki daginn eftir í aukafréttatímum þar sem hann veitti álit á atburðum á hinum pólitíska vettvangi.

Forseti sé læs á pólitík

Guðni benti svo á það sjálfur í einu fréttaviðtali að komið hefði í ljós í umrótinu að nauðsynlegt væri að hafa forseta sem er læs á pólitík. Mörgum virðist þá einmitt hafa komið hann sjálfur til hugar sem forsetaefni.

Nöfn fleiri álitsgjafa hafa verið nefnd. Björg Thorarensen sýndi skörulega framgöngu í beinum útsendingum og það væri raunar ekki í fyrsta sinn sem nafn hennar er nefnt í tengslum við embætti forseta.

Það kom Guðna greinilega á óvart að hann skyldi nefndur í þessu sambandi. „Þetta er svo tignarlegt embætti að maður gantast ekki með það,“ svaraði Guðni, spurður hvort hann tæki alvarlega að nafn hans skyldi nefnt. Og bætti við: „Ég lofaði góðum hópi fólks að svara því um helgina hvort ég væri tilbúinn að íhuga þetta, en að því sögðu þá velja menn ekki forsetaefni eftir frammistöðu í sjónvarpi, hvernig sem hún er. Fólkið velur forsetann; það er einmitt besta slagorð forsetakosninga á Íslandi, sem Ásgeir Ásgeirsson notaði 1952, og nú, á tímum samskiptamiðla og fjölmiðla er það nánast þannig líka að fólkið velur forsetaefnin. Ég held að enginn ætti að gefa kost á sér nema hafa einhverja hugmynd um hvers konar undirtektir framboð fengi og maður leyfir sér því í allri auðmýkt að sjá hvernig þetta þróast. En ég segi hreina satt að fyrir síðustu viku held ég að enginn hafi verið að máta mig við þetta embætti.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í eldlínunni síðustu viku. Hafa þessir …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í eldlínunni síðustu viku. Hafa þessir atburðir áhrif á forsetakosningarnar? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni bendir að kosningabarátta taki í raun sífellt styttri tíma. Á árum áður hafi menn stundum boðið sig fram snemma árs en nú fari baráttan jafnvel ekki á flug fyrr en nokkrum vikum fyrir kosningar.

„Til eru dæmi um að kosningaefni hafi skotist upp með látum, en skort úthaldið. Það er líklega gott svar sagnfræðings sem hefur aldrei sóst eftir embættum af neinu tagi!“ sagði Guðni á föstudaginn.

Akureyringur í framboð?

Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, var nefnd til sögunnar hér um síðustu helgi. Hún er enn að hugsa málið og staðfest er að stuðningsmenn hennar eru byrjaðir að safna meðmælendum með framboði.

Annar Akureyringar kom fram á sjónarsviðið í vikunni, bæjarstjórinn Eiríkur Björn Björgvinsson. Hann liggur undir feldi en sagði við blaðamann á föstudag að hann myndi ákveða fljótlega hvort hann færi fram eður ei. Líklegt er að hann tilkynni ákvörðun sína einhvern allra næstu daga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert