Heiðarleiki og siðbót kosningamálin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði frá því í samtali við Morgunblaðið …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði frá því í samtali við Morgunblaðið að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sæju sumir sér jafnvel hag í því að stjórnarsamstarfinu linnti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kastaði sprengju inn í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins þegar hann hélt því fram í samtali við Morgunblaðið að hann hefði haldið á Bessastaði og rætt þar um þingrof vegna innanbúðaátaka í Sjálfstæðisflokknum.

Þetta sagði Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólanna á Akureyri, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Aðrir viðmælendur voru Svarar Gestsson fyrrverandi ráðherra og Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR.

Til umræðu voru m.a. atburðir liðinnar viku og sagði Svavar stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar erfiða. Sagði hann að pólitíkin myndi á næstunni snúast um aflandseyjamál og að hver einasti frambjóðandi yrði spurður hvort hann ætti peninga á Tortóla.

Heiðarleiki og siðbót verða aðal kosningamálin, sagði Svavar, og sagði vonlaust fyrir framsóknarmenn að vera með svo laskaðan mann í brúnni. Menn hlytu að velta því fyrir sér að halda flokksþing í sumar og velja nýjan leiðtoga.

Sagði Svavar að það þyrfti að framkvæma rannsókn á aflandseyjamálunum, „hreinsa út þetta skolp; þetta er ekki gott fyrir þjóðina,“ sagði hann.

Ólafía sagði ástæðuna fyrir reiði fólks m.a. þá að þeir sem hefðu orðið uppvísir að því að eiga aflandsfélög hefðu m.a. borið því við að hafa ekkert hagnast á tilhöguninni en þeir hefðu samt farið út úr íslenska hagkerfinu og „spila á öðrum velli en við hin“.

Svavar sagði að nú væri verið að „opna allt“ og sagði að menn þyrftu að ganga í það og standa keikir og vera heiðarlegir. Bjarni Benediktsson væri í erfiðri stöðu og það besta í stöðunni hefði verið ríkistjórn undir forystu Einars K. Guðfinnssonar þingforseta.

Ólafía sagði þá hugmynd áhugaverða að skipa ríkisstjórn allra flokka en það hefði ekki dugað til. Hún benti á tregðu manna við að leggja spilin á borðið, t.d. hefði forsætisráðherra sagt að hann myndi opna sitt bókhald ef aðrir formenn gerðu það fyrst. „Þetta gengur einfaldlega ekki upp.“

Varðandi framhaldið sagði Grétar að eitt það fyrsta sem þyrfti að gerast, og sem allra fyrst, væri að setja dagsetningu á kosningar. Hann sagðist telja ólíklegt að stjórnarflokkarnir næðu að klára öll mál á málaskrá sinni.

Svavar sagðist halda að menn myndu tala sig í gegnum listann en benti á að ágreiningur ríkti meðal stjórnarflokkanna varðandi húsnæðismálin. Sagði hann að menn þyrftu að koma sér niður á jörðina varðandi þá hluti sem þeir ætluðu að klára, t.d. væri ljóst að það stæði ekki til að aflétta gjaldeyrishöftum 100%.

Hann ítrekaði svo að framkvæma þyrfti rannsókn á aflandsmálum og velja dagsetningu fyrir kosningar, fyrr fækkaði ekki á Austurvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka