Klára ákveðin mál - svo kosningar

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Fyrsti fundur miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embætti forsætisráðherra Íslands var haldinn í dag í Valhöll. Var meðal annars á fundinum farið yfir endurnýjað stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

„Á þessum miðstjórnarfundi var farið yfir endurnýjað stjórnarsamstarf og mánuðirnir framundan ræddir,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is, en miðstjórn er æðsta valdastofnun Sjálfstæðisflokksins á milli landsfunda. „Það er því eðlilegt í framhaldi af endurnýjuðu stjórnarsamstarfi að fara yfir stöðuna þar.“

Ríkisstjórnin hefur boðað kosningar í haust sem styttir þar með kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. Er þetta gert til að koma til móts við þá stöðu sem nú er uppi í íslenskum stjórnmálum.

Spurður hvort nákvæm tímasetning kosninga hafi verið til umræðu á fundinum kveður Bjarni nei við.

„Það er ekkert nýtt í því. Ég hef sagt það áður að það verður aðeins að ráðast af framhaldinu hvenær kosið verður, en við erum að horfa á haustið. Við höfum átt í samtali við stjórnarandstöðuna um það og getum vel hlustað eftir sjónarmiðum þaðan og gefið þeim kost á skoðunum á því.“

Kynna fjárlög og kosið skömmu síðar?

Þeir flokkar sem mynda stjórnarandstöðu á þingi hafa óskað eftir „kosningum strax“ en tillaga þess efnis hefur þegar verið felld í atkvæðagreiðslu. Hafa þessir flokkar einnig gagnrýnt það að ekki sé búið að ákveða nákvæma dagsetningu kosninganna í haust. 

Aðspurður segir Bjarni ótímabært að fastsetja dagsetninguna. „Við höfum verið alveg skýr með það að við viljum ljúka ákveðnum málum fyrst. Og eitt af því sem þarf að horfa til er það hvernig við eigum að haga því hvernig stjórnkerfið undirbýr fjárlagagerð fyrir næsta ár,“ segir hann og heldur áfram: „Það er ekki hægt að útiloka að ríkisstjórnin komi með fjárlagafrumvarp til kynninga í haust og síðan yrði gengið til kosninga skömmu síðar.“

Forystan fékk umboð nýlega

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ritað færslu á Facebook þar sem hún segir það ólýðræðislegt að sleppa því að kalla flokksmenn saman til að skýra stefnu flokksins, kjósa nýja forystu og skerpa áherslur fyrir kosningar.

Spurður út í þessi skrif svarar Bjarni: „Við ályktuðum um stefnuna og veittum forystunni umboð fyrir nokkrum mánuðum síðan. En það er ekki komið að því að ákveða þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert