Stjórnmál á Íslandi eru ekki einstök

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands býður upp á nýtt meistaranám í samanburðarstjórnmálafræði í haust. Þar verður lögð áhersla á að setja íslensk viðfangsefni í alþjóðlegt samhengi og að tengja námsefnið við málefni líðandi stundar. Námið er hvort tveggja í senn, fræðilega metnaðarfullt og hagnýtur undirbúningur fyrir fjölbreytt störf í atvinnulífinu, eins og fram kemur í lýsingu námsins.

„Námið er sérstaklega góður undirbúningur fyrir störf í stjórnsýslunni, hjá hagsmunasamtökum, alþjóðastofnunum eða ýmiskonar ráðgjafavinnu,“ segir Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði og kennari í nýju meistaranámi.

Nemendum sem lokið hafa grunnnámi í háskóla gefst nú færi á að sækja um meistaranámið en umsóknarfrestur rennur út þann 15. apríl næstkomandi.

Þjálfun í aðferðafræði

„Samanburður er aðalsmerki samanburðarstjórnmála en samanburður krefst þekkingar á stjórnmálum margra ríkja,“ segir dr. Stefanía Óskarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, um námið. Hún segir þá sem fara í gegnum sérhæft nám í samanburðarstjórnmálum skilja öðrum betur hvernig stjórnmálastofnanir og efnahagslíf móta umgjörð stjórnmálanna og opinberar ákvarðanir.

Nemendur koma til með að fá þjálfun í aðferðafræði sem sé eftirsótt leikni í flóknum viðfangsefnum stofnana, samtaka og fyrirtækja.

Eiga hliðstæðu í öðrum löndum

Agnar telur löngu tímabært að boðið sé upp á rannsóknartengt nám í stjórnmálafræði á Íslandi enda séu stjórnmálin mjög mikilvæg í samfélagslegu samhengi mála.

Bendir hann á að atburðir liðinnar viku í stjórnmálunum veki til að mynda ýmis tilefni til samanburðar.

„Skoðað mætti völd forseta Íslands í stjórnskipuninni í samanburði við völd forseta í öðrum ríkjum,“ segir Agnar en völd forseta Íslands hafi haft afgerandi áhrif á atburðarásina í liðinni viku þegar forsætisráðherra þurfti að leita undirskriftar hans til að rjúfa þing og fékk neitun.

Hagnýting námsins felist því m.a. í að skoða hvernig Ísland speglist í stjórnmálum annarra landa. „Okkur hættir oft til að láta eins og stjórnmál á Íslandi séu einstök en auðvitað eiga þau sér hliðstæðu í öðrum löndum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert