Stuðningur við forystuna

Guðlaugur Þór Þórðarson segist hafa fundið fyrir stuðningi við forystuna …
Guðlaugur Þór Þórðarson segist hafa fundið fyrir stuðningi við forystuna á miðstjórnarfundinum í dag. Kristinn Ingvarsson

Ánægja var á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins með það hvernig forysta og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins héldu utan um málin í síðustu viku, segir  Guðlaugur Þór Þórðarson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég heyrði að menn voru mjög ánægðir með hvernig forysta og þingflokkur hélt utan um þessi mál og að menn eru algjörlega meðvitaðir um að þetta var þröng staða og þeim fannst rétt að nálgast þetta af yfirvegun eins gert var.“

Guðlaugur Þór segir að þeir Bjarni Benediktsson hafi rakið atburðarás liðinnar viku og hvernig hlutir þróuðust. „Það var gott að fara yfir stöðuna. Tæknilega séð þá er þetta ekki ný ríkisstjórn þannig að það þarf ekki að fá samþykki hjá flokkssamkundum, en það var góð stemning á fundinum og stuðningur við forystuna og hvað menn væru að gera.“

Spurður hvort  hallarbylting sé í uppsiglingu, eða hvort viðtalið sem birtist í Morgunblaðinu í gær við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið meðal umræðuefna segir hann svo ekki vera.

„Eitt megin efni fundarins var að fara yfir tímalínuna og hvaða valkostir kæmu til greina. Núna er Sjálfstæðisflokkurinn að fara undirbúa sig fyrir kosningar af enn meiri krafti en ætlað var.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert