Er pláss fyrir alla undir regnhlífinni?

BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 en …
BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 en ekki eru allir á eitt sáttir um hvort félagið eigi heima þar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sam­tök­in ’78 glíma nú við eina stærstu kreppu sem komið hef­ur upp inn­an fé­lags­ins í ár­araðir. Skipt­ar skoðanir eru um nýtil­komna hags­munaaðild fé­lags­ins BDSM á Íslandi að sam­tök­un­um og raun­ar svo mjög að lög­mæti aðal­fund­ar var ve­fengt auk þess sem komið hafa fram van­trausts­yf­ir­lýs­ing­ar í garð stjórn­ar­inn­ar.

Þá hafa ein­hverj­ir gripið til þess ráðs að segja sig úr sam­tök­un­um, þar á meðal er Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, stofn­andi Hjalla­stefn­unn­ar, sem  hef­ur verið meðlim­ur sam­tak­anna í á fjórða ára­tug.

Í færslu á Face­book seg­ist Mar­grét Pála vera „al­gjör­lega mót­fall­in stefnu­breyt­ing­um Sam­tak­anna 78“ sem inn­taka BDSM Íslands feli í sér að henn­ar mati. Seg­ir hún þurfa að ríkja al­menn sátt allra fé­laga um efnið og að aðferðir téðra stefnu­breyt­inga þurfi að vera hafn­ar yfir all­an vafa sam­kvæmt fé­lagslög­um.

„Um hvor­ugt hef­ur verið hirt og því yf­ir­gef ég fyrr­um mann­rétt­inda­sam­tök­in mín með meiri sorg í hjarta en orð fá lýst.“

Fjöl­marg­ir inn­an sam­tak­anna hafa hins­veg­ar tekið fé­lag­inu fagn­andi. Þeirra á meðal er Auður Magn­dís Auðardótt­ir, fram­kvæmda­stýra Sam­tak­anna  ‘78, sem reit pist­il um málið fyr­ir Kvenna­blaðið.

 „Ef við gef­um BDSM-hneigðum sjálfs­skil­grein­ing­ar­vald til að skil­greina sín­ar upp­lif­an­ir og setja á þær orð, rétt eins og við höf­um kraf­ist þess að fá að gera varðandi okk­ar eigið líf, þá ligg­ur ljóst fyr­ir að þau eru hinseg­in,“ skrif­ar Auður. Seg­ir hún sam­tök­in, sem fé­lag hinseg­in fólks á Íslandi, ekki geta hafnað hluta hinseg­in fólks vegna ótta við að það skaði orðspor þeirra sem fyr­ir eru í fé­lag­inu. Það sé órétt­látt og and­stætt grunn­gild­um mann­rétt­inda­bar­áttu.

Leður og BDSM eru nátengd fyrirbæri í hugum margra.
Leður og BDSM eru ná­tengd fyr­ir­bæri í hug­um margra. mbl.is/​AFP

Sex at­kvæði skildu að

Ein­kunn­ar­orð BDSM á Íslandi eru „Öruggt – Meðvitað – Samþykkt“ og skil­grein­ir fé­lagið sig sem „stuðnings-­ og fræðslu­fé­lag fólks með BDSM­-hneigðir“. Fé­lagið fékk upp­runa­lega aðild að Sam­tök­un­um ’78 á aðal­fundi þeirra þann 5. mars en ve­fengt var að stjórn­inni hefði verið skylt að leggja um­sókn­ina fyr­ir aðal­fund­inn. Á heimasíðu Sam­tak­anna seg­ir að lögmaður sam­tak­anna hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að stjórn hafi sann­ar­lega borið skylda til að leggja um­sókn­ina fyr­ir en að hins­veg­ar hafi orðið ljóst við skoðun að aðrar ástæður gætu mælt gegn lög­mæti fund­ar­ins. Það var nefni­lega ekki boðað til hans „bréf­leiðis“ líkt og seg­ir í lög­um sam­tak­anna og var því ákveðið að boða til fé­lags­fund­ar.

Kosið var um allt það sem fram fór á aðal­fund­in­um að nýju, með leyni­legri kosn­ingu, þ. á m. um aðild BDSM-fé­lags­ins og um nýja stjórn. Stjórn­in hélt velli þar sem kjör henn­ar var staðfest með 105 at­kvæðum gegn 24. Mun minni mun­ur var í kosn­ingu um staðfest­ingu eða synj­un á aðild BDSM-fé­lags­ins að sam­tök­un­um. Alls greiddu 129 at­kvæði, þar af 72 með staðfest­ingu, 56 með synj­un og einn skilaði auðu.

Ásthild­ur Gunn­ars­dótt­ir, vara­formaður Sam­tak­anna ’78, seg­ir í sam­tali við mbl.is að lög fé­lags­ins krefj­ist ekki auk­ins meiri­hluta í kosn­ing­um sem þess­um. Hvað þetta til­tekna mál varðar hafi við yf­ir­ferð lag­anna hins­veg­ar komið í ljós að þau eru mein­gölluð. Því standi til að taka þau ræki­lega í gegn. Lög­in séu þó þær leik­regl­ur sem þurfi að spila eft­ir sem stend­ur. Í þessu til­viki hafi verið kosið eft­ir þeim í tvígang og sú kosn­ing standi.

Kyn­hegðun skipt­ir sköp­um

Nokkuð hef­ur verið rætt um mun­inn á kyn­hegðun og kyn­hneigð í tengsl­um við aðild BDSM Íslands að Sam­tök­un­um og um að marg­ir meðlim­ir BDSM Íslands séu gagn­kyn­hneigðir. Ásthild­ur bend­ir í því sam­hengi á að aðild­ar­fé­lög á borð við Trans Ísland og In­ter­sex Ísland byggi ekki á grunni kyn­hneigðar og því sé ástæðulaust að krefja önn­ur fé­lög um slíkt, þó raun­ar skil­greini um­rætt fé­lag fé­lags­menn sína sem BDSM-hneigt. Áhersla gagn­rýn­enda bein­ist þó ekki aðeins að því hverj­ir fé­lags­menn eru held­ur hvað þeir gera.

 „Fyr­ir mörg­um árum var kyn­lífs­vink­ill­inn af­tengd­ur umræðunni og bar­átt­unni af því að umræðan var svo nei­kvæð. Fólk sagði: „Ég vil ekk­ert vita hvað homm­ar eru að gera í sínu svefn­her­bergi,“ og þá held ég að umræðan hafi vilj­andi verið tek­in út fyr­ir þetta box,“ seg­ir Ásthild­ur.

Hún seg­ir kyn­hegðun þó aug­ljós­lega skipta sköp­um sem hluti af kyn­hneigð og að þó svo að vissu­lega hafi marg­ir flíkað viðlíka viðhorf­um í garð BDSM-fólks á síðustu vik­um og uppi voru gagn­vart sam­kyn­hneigðum fyr­ir ein­hverj­um árum virðist sem svo að auk­inn fjöldi fólks vilji ekki fela umræðuna um hinseg­in kyn­líf leng­ur.

Hún seg­ir að sá mál­flutn­ing­ur sem hafi komið sér og nýrri stjórn hvað mest á óvart sé hins­veg­ar gagn­rýni á að fyrri stjórn hafi lagt um­sókn BDSM Íslands fyr­ir aðal­fund enda hafi lögmaður sam­tak­anna tekið af all­an vafa um að henni hafi borið skylda til þess.

Ásthildur segir kynlífsvinkilinn viljandi hafa verið aftengdur umræðunni á árum …
Ásthild­ur seg­ir kyn­lífs­vink­il­inn vilj­andi hafa verið af­tengd­ur umræðunni á árum áður.

„Þurf­um að stoppa og skoða mál­in“

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Mar­grét Pála seg­ir að það sem standi í sér sé fyrst og fremst að ákvörðunin sé mjög um­deild og að vafi leiki á hvort nægi­lega sterk­ur meiri­hluti sé inn­an sam­tak­ana fyr­ir þess­ari ákvörðun.

„Sam­tök­in ’78 hafa lengst af verið mann­rétt­inda­sam­tök sem setja rétt­inda­bar­áttu og bar­áttu fyr­ir viður­kenn­ingu í fremsta sæti. Nú eru þau að stefna í að vera regn­hlíf­ar­sam­tök fyr­ir allskyns fjöl­breyti­leika sem get­ur verið frá­bært en ég segi fyr­ir mig að ef það er ekki sterk­ur meiri­hluti fyr­ir því að við séum að fara end­an­lega inn á þá braut þurf­um við að stoppa við og skoða mál­in bet­ur.“

Hún seg­ir tvíþætta stefnu­breyt­ingu fel­ast í aðild BDSM Íslands að Sam­tök­un­um. Ann­ars veg­ar hafi verið þvinguð fram ákvörðun með naum­um meiri­hluta og hins­veg­ar ríki ekki ein­hug­ur um að BDSM-fólk verði fyr­ir beinni mis­mun­un á grund­velli kyn­hneigðar. Í fé­lag­inu sé margt gagn­kyn­hneigt fólk sem vissu­lega þurfi að sam­ein­ast um sína stöðu, sýni­leika og virðingu en að marg­ir fé­lags­menn Sam­tak­anna nái ekki að tengja það við mann­rétt­inda­bar­áttu sam­kyn­hneigðra, tví­kyn­hneigðra og trans-fólks.

Mar­grét seg­ir þá sundr­ungu sem upp er kom­in til þess fallna að draga úr afli og áhrif­um Sam­tak­anna. Hún seg­ir marga ótt­ast hvað verði um sér­mál­efni lesbía og homma inn­an Sam­tak­anna ’78 ef hóp­ar þar inn­an verði svo marg­ir og ólík­ir að upp­runa­leg­ar áhersl­ur sam­kyn­hneigðra glat­ist vegna regn­hlíf­ar­hlut­verks­ins gagn­vart öðrum hóp­um.

„Ef regn­hlíf­in verður of stór er hætta á að það fari eitt­hvað að gefa sig í henni. Það er ástæðan fyr­ir því að regn­hlíf­ar eru yf­ir­leitt í ákveðinni stærð, svo þær geti haldið sínu þjála hlut­verki, að það megi leggja þær sam­an og síðan spenna aft­ur út með nægi­leg­um styrk.“

Margrét Pála hefur yfirgefið Samtökin '78 með sorg í hjarta.
Mar­grét Pála hef­ur yf­ir­gefið Sam­tök­in '78 með sorg í hjarta. Ljós­mynd/​Stein­ar H

„Eng­in raun­veru­leg stefnu­breyt­ing“

Fyrr­nefnda stefnu­breyt­ingu vill Ásthild­ur ekki kann­ast við.

„Staðreynd máls­ins er bara sú að það er eng­in raun­veru­leg stefnu­breyt­ing,“ seg­ir Ásthild­ur. „Ef það varð stefnu­breyt­ing þá átti hún sér stað fyr­ir miklu lengri tíma þegar fé­lagið hætti að vera bara fé­lag fyr­ir sam­kyn­hneigða. Fé­lagið er hinseg­in fé­lag í dag. Við erum t.d. með in­ter­sex fólk og trans­fólk og hvor­ugt snýst um kyn­hneigð.“

Hvað dag­lega starf­semi sam­tak­anna varðar seg­ir Ásthild­ur að eng­ar breyt­ing­ar verði þar á þrátt fyr­ir að nýtt fé­lag hafi fengið aðild. Fræðsla á veg­um þeirra hafi blómstrað, enn sé boðið upp á fag­lega ráðgjöf auk þess sem opin hús og ungliðastarf­semi heyri enn und­ir þenn­an sama hátt.

Hún seg­ir að þó svo að það hafi frést af stofn­un fé­laga homma eða lesbía sé það í eðli sínu ekki beinn ósig­ur fyr­ir Sam­tök­in enda hafi þau þegar áþekk fé­lög inn­an sinna raða.

„Ef fólk tel­ur þörf á því að vera með sér fé­lag er það al­veg gott og blessað. En við erum allt í einu að heyra radd­ir um það núna að fólk sé ósátt við að þetta sé ekki leng­ur fé­lag þess. Fólk er að segja að sam­tök­in eigi ekki að berj­ast fyr­ir rétt­ind­um gagn­kyn­hneigðra held­ur sam­kyn­hneigðra en þá er búið að loka á stór­an hóp fé­lags­manna. Það þýðir hins­veg­ar að fólk rís öfl­ugt upp á móti.“

Grandskoðaði hjarta sitt

Mar­grét seg­ist virða skoðanir þeirra sem telja gagn­rýni þeirra sem mót­mælt hafa aðild BDSM Íslands að Sam­tök­un­um lit­ast af ein­mitt þeim for­dóm­um sem fé­lagið tel­ur fé­lags­menn sína verða fyr­ir. Hún hafi hins­veg­ar grandskoðað hjarta sitt.

„Efn­is­leg umræða um hverj­ir eiga sam­an og hverj­ir ekki er flók­in og til­finn­inga­tengd og ég veit að marg­ar lesb­í­ur og homm­ar líta til þessa þátt­ar að það skipti ekki leng­ur máli gagn­vart aðild að Sam­tök­un­um hvort fólk sé sam­kyn­hneigt eða gagn­kyn­hneigt.“

Mar­grét seg­ir einnig að mögu­lega skipti það ekki máli leng­ur og að hinni löngu veg­ferð sam­kyn­hneigðra sem leiðandi afls í Sam­tök­un­um '78 sé lokið en að þá sé best að ræða heiðarlega um þá breyt­ingu.

Hún seg­ir að þó svo að margt trans- og in­ter­sex fólk sé gagn­kyn­hneigt hafi það samt passað und­ir sam­taka­hatt­inn þar sem þeir hóp­ar eigi í beinni laga­legri bar­áttu gegn „sömu mis­mun­un­ar­á­kvæðum“.

„En ef það væri sterk­ur meiri­hluti fyr­ir inn­göngu BDSM-fé­lags­ins á lög­lega boðuðum aðal­fundi væri afstaða mín vita­skuld önn­ur en hún er í dag. Mér finnst skipta máli að við ákveðum leik­regl­urn­ar okk­ar og spil­um eft­ir þeim og ég held að það sé ekki okk­ar sam­fé­lagi til góðs að ákv­arðanir séu að fara í gegn nema fyr­ir þeim sé al­manna­vilji. Þá skipt­ir mig engu máli hvort fólk sit­ur í stjórn Sam­tak­anna ’78 eða á Alþingi. Ég trúi alltaf á sætt­ir og skiln­ing.“

50 hafa sagt sig úr Samtökunum vegna málsins.
50 hafa sagt sig úr Sam­tök­un­um vegna máls­ins. AFP

100 inn en 50 út

Þó svo að Mar­grét sýni vilja til umræðu hef­ur lítið farið fyr­ir þeim sem mót­falln­ir eru aðild BDSM Íslands, á fræðslufund­um Sam­tak­anna um efnið sem haldn­ir voru í aðdrag­anda kosn­ing­anna, að sögn Ásthild­ar. Seg­ist hún raun­ar hafa saknað þess að fá sjá ekki þær „nei-radd­ir“ sem hafa haft sig hvað mest í frammi meira í umræðunni fram að kosn­ing­un­um.

Eins og áður kom fram hef­ur Mar­grét Pála sagt sig úr Sam­tök­un­um og sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Auði Magn­dísi, fyrr­nefndri fram­kvæmda­stýru Sam­tak­anna, hafa 49 gert slíkt hið sama frá því hags­munaaðild BDSM Íslands lá fyrst fyr­ir. Á móti kem­ur að áður en málið kom upp höfðu um 50 skráð sig í fé­lagið það sem af var ár­inu auk þess sem um 50 hafa skráð sig í fé­lagið eft­ir að málið kom upp. Því hafa sam­tals um 100 manns skráð sig í fé­lagið frá ára­mót­um en 50 úr. Þær töl­ur geta enn breyst enda um mikið hita­mál að ræða.

Ásthild­ur seg­ir þó raun­ar ákveðið ánægju­efni hversu mik­inn áhuga fólk hafi sýnt á starf­inu síðustu vik­ur en hún tel­ur að fé­laga­fund­ur­inn, þar sem 129 manns greiddu at­kvæði, hafi verið sá fjöl­menn­asti um ára­bil.

„Þó það sé ekki nema það að fólk sem ekki hef­ur verið að taka virk­an þátt í fé­lag­inu gæti verið að vakna upp við það að það þurfi að taka þátt til að hafa rödd. Ef virk þátt­taka á aðal- og fé­lags­fund­um eykst er það frá­bær fylgi­fisk­ur og mun betra en að reyna að skrapa sam­an 15 manns til að hafa lög­leg­an aðal­fund.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert