Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun leiða vinnu fyrir hönd flokksins í tengslum við málefni skattaskjóla og vinnu gegn þeim. Á þingflokksfundi í dag ræddu þingmenn flokksins almennt um skattaskjól og lýstu yfir að þeir styddu hugmyndir um að upplýsa þyrfti frekar um málefni skattaskjóla og vinna gegn þeim. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, í samtali við mbl.is.
Ásmundur segir að þingmenn hafi verið sammála um að leita ætti samstöðu allra flokka í málinu og að tekið hafi verið undir ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra, um að það væri óeðlilegt að geyma fjármuni á skattaskjólum.
Segir Ásmundur að Frosti muni leiða vinnu flokksins á komandi misserum um þessi mál.
Á fundinum var einnig rætt um formennsku flokksins og landsþing. Segir Ásmundur að það hafi verið ítrekað á fundinum af þingmönnum að það væru flokksmenn og flokksþing sem tækju ákvarðanir um forystu flokksins. Þá væri það ákvörðun miðstjórnar að ákveða tímasetningar landsþings en ekki þingmanna.