Greiði skuld vegna fermingarveislu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður þarf að greiða veisluþjónustunni Veislulist ehf. rúmlega hundrað þúsund krónur auk dráttarvaxta að frádreginni innborgun vegna skuldarinnar. Þá þarf maðurinn einnig að greiða málskostnað.

Veislulist krafðist þess að maðurinn greiddi skuld að fjárhæð 181.027 krónur auk dráttarvaxta vegna veitinga og þjónustu í fermingarveislu sonar mannsins. Þegar greiðslur vegna þjónustunnar bárust ekki var reikningurinn sendur í innheimtu til Motus. Skuldin fékkst ekki greidd þrátt fyrir innheimtuviðvaranir.

Maðurinn bar fyrir sig ýmsum persónulegum ástæðum og aðstæðum við heimili hans um að honum hafi ekki borist neinar tilkynningar um vanskil. Samkvæmt gögnum málsins voru manninum sendar fimm tilkynningar um vanskil áður en honum barst stefna málsins.

 Verður að telja ósennilegt að stefnda hafi ekki borist nein af þeim tilkynningum og að honum hafi ekki verið ljóst að ekki væri búið að skuldfæra eftirstöðvar af reikningi hans auk þess sem aðstæður við heimili hans eru ekki á ábyrgð stefnanda. Þá upplýsti stefndi í greinargerð sinni að hafa fengið símtal frá Motus þar sem honum var tilkynnt um vanskilin og hefði honum því átt að vera þau ljós, segir í dómi héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert