Umfjöllun um Ísland í tengslum við Panama-skjölin hefur beinst að helstu gerendum í íslenskum stjórnmálum og mótmælum almennings. Hún var neikvæð framan af en hlutlaus og jafnvel jákvæð í kjölfar afsagnar forsætisráðherra og mótmæla almennings. Þetta kemur fram í lauslegri samantekt utanríkisráðuneytisins yfir erlenda umfjöllun um Ísland og Panamaskjölin.
Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu mun Lilja Dögg Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra, funda með sendifulltrúum erlendra ríkja á næstunni og m.a. ræða atburði síðustu viku.
Erlend umfjöllun um Ísland hefur aðallega beinst að stjórnmálamönnum og mótmælum almennings en síður að viðskiptalífinu og Íslandi almennt, að mati utanríkisráðuneytisins.
„Ítarleg umfjöllun um eignir og félög fyrrum forsætisráðherra og annarra ráðherra í ríkisstjórninni í skattaskjólum og ekki síður myndræn framsetning í helstu miðlum er ekki jákvæð,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Þar segir einnig að fréttir af þróun mála síðustu viku skipti þúsundum og samfélagsmiðlafærslur tugum þúsunda.
Ráðuneytið metur framhaldið þannig að þrátt fyrir að óljóst sé hver framvinda málsins verður sé ólíklegt að kastljós fjölmiðla muni aftur beinast að íslenskum stjórnmálamönnum með jafnmiklum þunga.
„Til lengri tíma litið eru áskoranir framundan. Enn eru óbirtar upplýsingar um hundruð íslenskra aðila og leiða má líkur að því að það verði hluti af frásögnum alþjóðlegra fjölmiðla um hvað fór úrskeðis á Íslandi á árunum fyrir hrun.
Mat okkar í utanríkisráðuneytinu, sem jafnframt er byggt á stöðutöku helstu sendiskrifstofa Íslands og Íslandsstofu, er að til skemmri tíma hafi ímynd og ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi ekki beðið umtalsverða hnekki þrátt fyrir talsverða ágjöf.“
Samkvæmt ráðuneytinu er of snemmt að segja til um lengri tíma áhrif. Þá hefur utanríkisráðuneytið, ásamt fleiri ráðuneytum, það í skoðun hvort ástæða er til að bregðast við, t.d. með greinaskrifum, viðtölum eða öðru móti.