Sigurður Ingi: Innsýn í undarlega veröld

Sigurður Ingi Jóhannsson og Elsa Ingjaldsdóttir kona hans búa í …
Sigurður Ingi Jóhannsson og Elsa Ingjaldsdóttir kona hans búa í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi. Þar eyddu þau helginni eftir stormasama viku. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fyrsta verk Sigurðar Inga Jóhannssonar í forsætisráðuneytinu á föstudag var að láta kanna hvort hægt væri að banna Íslendingum að vista peninga í lágskattaríkjum.

Í Panamaskjölunum eru upplýsingar um fjölda Íslendinga sem á aflandseignir. Enn á eftir að birta frekari upplýsingar úr skjölunum.

„Skýrslurnar gáfu okkur innsýn í undarlega veröld; að efnafólk visti peninga sína í lágskattaríkjum jafnvel þótt skattar séu greiddir af þeim,“ segir Sigurður Ingi í viðtali við Morgunblaðið í dag. „Ljóst er að það er löglegt. Þannig er þetta fyrst og síðast siðferðislegt álitaefni. Mitt fyrsta verk í forsætisráðuneytinu á föstudag var að láta kanna hvort við gætum bannað Íslendingum að vista peninga í lágskattaríkjum. Fyrstu svör sérfræðinga eru þau að vegna m.a. jafnræðisreglu EES-samningsins sé það ekki hægt. Mér hefur því þótt sérkennilegt að heyra Evrópusambandssinna, Samfylkinguna og Bjarta framtíð og jafnvel Pírata, sem hafa aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá, tala um að loka eigi á möguleika fólks að vista peningana sína á aflandseyjum. Þetta er alþjóðlegt vandamál,“ segir Sigurður Ingi og bætir við:

„Í mínum huga er siðrofið hluti af því ástandi sem myndaðist á árunum 2004-2007 þegar lánsféð flæddi yfir landið. Vissulega breyttist margt til hins betra í siðum og viðhorfum þjóðarinnar með hruninu, en að fólk skyldi áfram vista eigur sínar á aflandseyjum er eitt af því sem upprættist ekki. Slík umsýsla er vissulega ekki ólögleg en óeðlileg er hún.“

Sigurður Ingi tók við embætti forsætisráðherra af Sigmundur Davíð Gunnlaugssyni í síðustu viku en í Panamaskjölunum kom fram að Sigmundur hefði verið skráður fyrir helmingshlut í aflandsfélagi.

Frétt mbl.is: Samtal við þjóðina mistókst

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert