Skera upp herör gegn skattaskjólum

Frosti Sigurjónsson á Alþingi.
Frosti Sigurjónsson á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem mun leiða vinnu fyrir hönd flokksins í aðgerðum gegn skattaskjólum, segir Framsóknarflokkinn eiga mikið undir því að vel takist til hjá stjórnvöldum í aðgerðum þeirra til að koma böndum á skattaskjól.

Frosti kynnti hugmyndir sínar fyrir samflokksmönnum sínum á þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem fram fór fyrr í dag. Boðað hefur verið til fundar hjá efnahags- og viðskiptanefnd nk. miðvikudag að frumkvæði Frosta, en þar hyggst nefndin óska eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum.

„Við teljum það mikilvægt að Ísland taki forystu meðal jafningja og sýni frumkvæði. Orðspor landsins beið hnekki og í ljósi þess hve margir einstaklingar og fyrirtæki voru í þessum gögnum þurfum við að gera sérstakt átak til að bæta ímynd okkar út á við,“ segir Frosti.

Hertar reglur, jafnvel bann við eignarhaldi á aflandsfélögum

Frosti leggur til að nokkrar leiðir verði skoðaðar í aðgerðum stjórnvalda við að koma böndum á skattaskjól. Í fyrsta lagi er það að rannsaka umfang málsins að sögn Frosta. Í því skyni þurfi að auka fjárveitingar til skattrannsókna og eftirlits.

Þá nefnir hann að skoða þurfi lög sem séu víða erlendis, þar sem krafa er gerð um að endanlegur eigandi sé gefinn upp í hluthafaskrá hvers félags. Hann segir að tilskipun frá Evrópusambandinu þess efnis sé væntanleg á næstu árum, en fullt tilefni sé til þess að stíga skrefið núna. Vísar hann til breskra laga í þessu samhengi, þar sem upplýsa þurfi um það hver það sé sem sé eigandi, eigi viðkomandi yfir fjórðungshlut í félagi.

Önnur leið sé hreinlega að banna ráðgjöfum ýmiss konar, s.s. endurskoðendum eða bönkum, að leiðbeina fyrirtækjum og einstaklingum um stofnun aflandsfélaga. Frosti segir að slíkt sé gert í einhverjum ríkjum.

Eins nefnir Frosti að skoða þurfi hvort afdráttarskattur svonefndur gæti nýst í átaki sem þessu. Skatturinn felur í sér að ákveðin prósenta er innheimt af vaxtagreiðslum íslenskra félaga vegna lána sem tekin eru hjá félögum í skattaskjólum erlendis. Loks vill hann að skoðað verði hvort hægt sé að banna eða setja strangari reglur um eignarhald íslenskra einstaklinga eða fyrirtækja á aflandsfélögum.

Frosti segir að framhaldið ráðist að hluta til af fundinum á miðvikudag. Hann segir Fjármálaeftirlitið þegar byrjað að afla upplýsinga hjá bönkum hérlendis um það hvernig þeir hagi sínum málum í tengslum við aflandsfélög og skattaskjól.

Skattaskjól verða rædd á fundi viðskipta- og efnahagsnefndar Alþingis á …
Skattaskjól verða rædd á fundi viðskipta- og efnahagsnefndar Alþingis á miðvikudag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert