Fordæmalaus staða í sögu skólans

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.
Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fordæmalaus staða er komin upp í rekstri Verkmenntaskólans á Akureyri að sögn Sigríðar Huldar Jónsdóttur skólameistara. Þetta kemur fram í frétt á vef skólans þar sem fram kemur að ríkið greiði ekki rekstrarfé til skólans fyrr en uppsafnaður halli síðustu tveggja ára hafi verið endurgreiddur ríkissjóð. Því hafi skólinn lítið eða ekkert getað greitt fyrir nauðsynleg aðföng til skólans, reikningar hrannist upp og á þá eru komnir dráttarvextir.

„Við fáum sértekjur í upphafi annar vegna innritunargjalda og efnisgjalda og við nýttum þær tekjur í rekstri skólans á fyrstu vikum annarinnar en síðan leið tíminn og við fengum ekkert að vita fyrr en við óskuðum eftir rekstrarfé í febrúar um þá afstöðu mennta- og menningarmála-  og fjármálaráðuneytisins að loka á allar greiðslur rekstrarfjár til skólans fyrr en hann væri búinn að greiða til baka uppsafnaðan halla í rekstrinum,“ segir Sigríður á í fréttinni.

„Við höfðum ekkert bréf fengið í þessa veru og ég var ekki heldur upplýst um það þegar ég tók við starfi skólameistara í desember sl. að ég væri að taka við stofnun sem fengi ekkert rekstrarfé eftir áramót.“

Sigríður segir stjórnendur skólans telja hann ekki hafa fengið launahækkanir kennara viðurkenndar í framlögum til skólans og að hækkun í framlögum á hvern nemenda í VMA sé mun minni en í sambærilegum skóla. Segir hún framlög á ársnemanda í VMA hafa hækkað um 1,6 prósent milli áranna 2015 og 2016 en hækkunin í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti nemi 5,7 prósentum.

Þá segir hún engar upplýsingar um breytt rekstrarfyrirkomulag hafa komið fram á fundi stjórnenda skólans í menntamálaráðuneytinu síðastliðið haust. Raunar hafi enginn framhaldsskóli fengið slíkar upplýsingar þó fjölmargir framhaldsskólar séu í sömu stöðu þessa dagana.

Mér finnst ekki vel farið með skattfé almennings að safna dráttarvöxtum vegna þess að við getum ekki greitt okkar reikninga. Við höfum lengi sagt að þessi halli er til kominn vegna þess að rangt er gefið í fjárframlögum til skólanna. Það að stjórnendur meira en helmings framhaldsskólanna á Íslandi telji sig ekki geta rekið skólana sína réttum megin við núllið hlýtur að segja okkur að eitthvað annað en að við séum að bruðla í okkar rekstri veldur þessari stöðu.“

Sigríður Huld segist ítrekað hafa óskað eftir fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stöðuna en erindi hennar hafi ekki verið svarað.

Greinina í heild sinni má lesa á vef VMA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert