Nýlegar breytingar á ríkisstjórn Íslands eiga sér stað þegar ótvíræður árangur hefur náðst í efnahagslífinu. Viðlíka hagvöxtur hefur ekki mælst síðan fyrir bankakreppu en hvílir nú á mun styrkari stoðum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er nú stödd hér á landi.
Segir í yfirlýsingunni að til grundvallar núverandi stöðu liggi fjölgun ferðamanna sem styðji við hagvöxt og skapi gjaldeyristekjur. Þá segir að afnám hafta af slitabúum gömlu bankanna hafi nýlega verið framkvæmt af leikni, þar sem tókst að verja gjaldeyrisvarasjóðinn, lágmarkaða lögfræðilega áhættu og skapa um leið hvalreka fyrir ríkissjóð. Þessar greiðslur ásamt nýtilkominni heildstæðri löggjöf um fjármál hins opinbera ættu að leiða til verulegrar lækkunar á skuldum ríkisins.
Vegna þessa hafa skapast kjöraðstæður fyrir ný skref í afnámi fjármagnshafta. Segir sjóðurinn að átak til að leysa út aflandskrónueignir sé eðlilegt skref áður en stjórnvöld snúi sér að losun hafta á almenning. Hækkun þaks á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis væri annað skynsamlegt skref að sögn sjóðsins. Aðrar aðgerðir þurfi aftur á móti að vera varfærnar, vel skipulagðar og byggja á markmiðum um eflt fjármálaeftirlit og notkun þjóðhagsvarúðartækja.
Í yfirlýsingunni kemur fram að hagvöxtur stefni nú í 2,5% til meðallangs tíma þar sem öflug einkaneysla, fjárfesting og ferðamannaiðnaður muni knýja framleiðslu og atvinnusköpun.
Þá segir sjóðurinn að „óhóflegar launahækkanir“ munu líklega auka verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans til skamms tíma litið. Því megi gera ráð fyrir auknu aðhaldi peningastefnunnar sem leitar að hóflegri verðbólgu og mjúkrar lendingar efnahagslífsins. Segir í yfirlýsingunni að launahækkanir muni draga úr samkeppnishæfi. Þetta, ásamt lakari viðskiptakjörum, myndi valda minnkandi afgangi af viðskiptajöfnuði.
Sjóðurinn varar við því að mesta áhættan gæti verið önnur kollsteypa eftir ofþenslu eins og áður hefur gerst hér á landi. Þannig hafi almenn krafa verið um aukin ríkisútgjöld eftir aðhaldsár og ef nýlega uppstokkuð ríkisstjórn eða komandi ríkisstjórnir freisti þess að afla sér vinsælda með auknum útgjöldum mynd slíkt bætast við ríflegar launahækkanir og kynda undir innlenda eftirspurn. Slík þróun myndi kalla á enn meiri vaxtahækkanir en nú er gert ráð fyrir. Hærri vextir gætu dregið að meiri vaxtamunarviðskipti sem gætu grafið undan fjármálastöðugleika og skaðað samkeppnishæfi enn frekar.
Í yfirlýsingunni er heildstæðum lögum um opinber fjármál fagnað og sagt að viðmið t.d. um hámark 30% skuldsetningu miðað við verga landsframleiðslu myndi leiðbeinandi langtíma umgjörð um opinber fjármál.
Þá er rammi um kjarasamninga í tengslum við svokallað Salek samkomulag sagður vera forsenda efnahagslegs stöðugleika.
Segir sjóðurinn að líklegt sé að þörf verði á auknu aðhaldi peningastefnunnar og þrátt fyrir andstöðu úr ýmsum áttum sé réttmætt að Seðlabankinn hækki vexti enn frekar til að auka trúverðugleika sinn.
Sjóðurinn segir að frekari losun hafta þurfi að framkvæma með varúð. Skynsamlegt sé að gera atlögu að aflandskrónuvandanum áður en athyglin beinist að innlendum aðilum. Langlíf höft magna upp bresti svo sem of mikla áhættusækni lífeyrissjóða. Það er rökrétt fyrsta skref að heimila aukna erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða samtímis því að ráðstafanir séu gerðar til að efla stjórnarhætti og áhættustýringu í lögum um lífeyrissjóði. Gera þarf yfirgripsmikla áætlun sem miðar að losun hafta á heimili og fyrirtæki. Slík áætlun ætti að fela í sér áþreifanlegar skuldbindingar til að bæta bankaeftirlit og styrkja þjóðhagsvarúðartæki
Þá segir að ríkið, sem meirihlutaeigandi bankakerfisins, fari fram með ábyrgð í þeim efnum. Gæta þarf að því að arðgreiðslur skerði ekki um of lausafé bankanna. Ekki á að hraða einkavæðingu um of en leggja þess í stað áherslu á að finna trausta kaupendur, helst erlenda banka með gott orðspor. Jafnframt ætti að huga að því að efla lagaheimildir og sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins samhliða vinnu við þróun áhættumats og bættu bankaeftirliti með breytingum á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Að lokum segir sjóðurinn mikilvægt að efling þjóðhagsvarúðartækja haldi áfram af krafti og aukin valddreifing í þessu tilliti væri til bóta. Meðal markmiða er að auka viðnámsþrótt efnahagsreikninga – einkum með tilliti til gengisáfalla – og draga úr kerfisáhættu sem skapast getur af miklu og sveiflukenndu fjármagnsflæði. Meðal mikilvægra frumvarpa sem liggja fyrir Alþingi eru lög sem setja þak á veðhlutfall húsnæðislána og takmarka óvarðar erlendar lántökur. Einnig þarf að halda áfram vinnu við þróun virkra stjórntækja vegna fjármagnshreyfinga, sem gæti skapað peningastefnunni aukið svigrúm. Litið fram á veginn mætti huga að samhæfðari nálgun þar sem Seðlabanka og Fjármálaeftirliti yrðu færðar heimildir til að innleiða ný tæki á grundvelli reglugerðar, að því er sjóðurinn segir.