IMMI, alþjóðleg stofnun um upplýsingaog tjáningarfrelsi, leggst eindregið gegn „heftingu tjáningarfrelsis starfsmanna Ríkisútvarpsins sem nýjar siðareglur RÚV kveða á um“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Á heimasíðu stofnunarinnar segir að IMMI sé alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem var stofnuð 2011 til að leiða saman rannsóknir á sviði lagasmíði 21. aldarinnar hérlendis semog erlendis. Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, er talsmaður samtakanna.
Starfsfólk RÚV samþykkti nýlega nýjar siðareglur. Starfsfólkið valdi nokkra fulltrúa sem útfærði reglurnar og voru þær bornar til samþykktar meðal starfsfólks.
Þar segir meðal annars: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólítísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“
Í tilkynningu IMMI segir að með nýju reglunum sé stjórnarskrárvarinn réttur til frjálsrar tjáningar virtur að vettugi.
„Það er grafalvarlegt að ætla að hefta skoðana- og tjáningarfrelsi starfsmanna RÚV. Hér er um aðför að persónufrelsi að ræða þar sem einstaklingum er gert að hafa skoðanir sínar í hljóði til þess að mega sinna störfum sínum fyrir ríkisfjölmiðil.
Vitanlega á að krefjast fagmennsku í fréttaflutningi og hlutleysis er gætt með því að ólík sjónarmið fái að heyrast. En að hefta lögbundinn borgaraleg réttindi einstaklinga með þessum hætti og krefjast þess að einstaklingar sitji á skoðunum sínum og sjálfritskoði skrif sín og samskipti er í besta falli óboðlegt, í versta falli þöggun.
IMMI stofnunin hvetur til endurskoðunar þessara siðareglna undir eins til að stöðva sem fyrst kælingaráhrif þessara reglna á tjáningarfrelsi,“ segir í tilkynningunni.