EES-samningurinn útilokar ekki að sett verði lög sem banna vistun eigna á lágskattasvæðum utan EES-svæðisins. Þetta kemur fram í áréttun sem Eftirlitsstofnun ESA sendi frá sér í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær að hans fyrsta verk í forsætisráðuneytinu hefði verið að láta kanna hvort hægt væri að banna Íslendingum að vista peninga í lágskattaríkjum.
Frétt mbl.is: Sigurður Ingi: Innsýn inn í undarlega veröld
„Fyrstu svör sérfræðinga eru þau að vegna m.a. jafnræðisreglu EES-samningsins sé það ekki hægt,“ sagði Sigurður Ingi.
„Mér hefur því þótt sérkennilegt að heyra Evrópusambandssinna, Samfylkinguna og Bjarta framtíð og jafnvel Pírata, sem hafa aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá, tala um að loka eigi á möguleika fólks að vista peningana sína á aflandseyjum. Þetta er alþjóðlegt vandamál,“ sagði hann jafnframt.
Áréttun Eftirlitsstofnunar ESA í heild sinni:
Í umræðu um mögulegar aðgerðir til að koma í veg fyrir að eignir séu vistaðar í skattaskjólum hefur þess misskilnings gætt að slíkt stangist á við EES-samninginn.
Af því tilefni vill Eftirlitsstofnun EFTA árétta að EES-samningurinn útilokar ekki að sett verði lög sem banna vistun eigna á lágskattasvæðum utan EES-svæðisins.
Grunnreglan um frjálsa fjármagnsflutninga er sú að ekki séu takmarkanir á flutningi fjármagns milli ríkja sem eiga aðild að EES-samningnum. Ákvæði EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga gilda ekki um önnur ríki.