Hefja uppboð á Jökulsárlóni

Jökulsárlón er með þekktari náttúruperlum landsins og er mikill áhugi …
Jökulsárlón er með þekktari náttúruperlum landsins og er mikill áhugi á jörðinni sem nú er í nauðungarsöluferli. Ómar Óskarsson

Annað stig nauðungarsölu á jörðinni Fell, sem meðal ann­ars nær til um helm­ings Jök­uls­ár­lóns, fer fram á morgun. Staðfesti Sýslumaðurinn á Suðurlandi, Anna Birna Þráinsdóttir í samtali við mbl.is að byrjun uppboðs fari fram í fyrramálið.

Þann 10. mars sl. féllst sýslumaðurinn á beiðni um nauðungarsölu til slita á sameign á jörðinni Fell í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu, sem m.a. nær til um helmings Jökulsárlóns. Jörðin er alls 10.528 hektarar og eru landeigendur, sem eiga jörðina í sameiningu, um 40 talsins. Jörðinni tilheyrir jafnframt um helmingur Jökulsárlóns til móts við íslenska ríkið.

Um 40 land­eig­end­ur eiga hlut í jörðinni sem rekja má til óskipts dán­ar­bús.

Jökulsárlón er ein af þekktustu náttúruperlum Íslands og sýna tölur að um þriðjungur ferðamanna skoðar lónið á ferð sinni um Ísland. Við lónið hefur margvísleg ferðaþjónusta verið starfrækt og hafa eigendur Fells átt í deilum vegna þessa, sem og með hvaða hætti eigi að haga uppbyggingu á svæðinu. Ekki hefur tekist að leysa úr þeim deilumálum og fyrir vikið féllst sýslumaður á Suðurlandi á gerðarbeiðni eigenda um að bjóða landið upp.

Síðasta uppboðið 12. maí?

Nauðungarsölur skiptast í þrjú stig – fyrstu fyrirtöku, byrjun uppboðs og svo framhald uppboðs sem fara mun fram á jörðinni sjálfri, nái landeigendur ekki ekki að leysa úr deilumálum sínum í millitíðinni. Ekki mega líða nema fjórar vikur frá byrjun uppboðs og þangað til framhald uppboðs fer fram og verður jörðin því að óbreyttu boðin upp í síðasta sinn ekki seinna en 12. maí nk.

Heimildir Morgunblaðsins í síðustu viku gáfu til kynna að mikill áhugi væri á kaupum á jörðinni og að erlendir aðilar á EES-svæðinu hafi m.a. lýst áhuga sínum á kaupum. Vesturbakki lónsins er þjóðlenda og ekki má raska við honum með byggingum samkvæmt skipulagi, en deiliskipulag heimilar takmarkaða uppbyggingu á austurbakkanum, þeim hluta landsins sem er á leið á uppboð.  

Metin á allt að tvo milljarða

Ljóst má telja að háar upphæðir fáist fyrir jörðina og hafa verið nefndar tölur frá hundruð milljóna hið minnsta og allt upp í tvo milljarða.

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, hefur lýst því að bæjaryfirvöld á Hornafirði óttist að seljist landið fyrir offjár þá leiði það til þess að þrýst verði á um mikla uppbyggingu sem geti spillt svæðinu. Telur hann ríkið eigi að meta hvort það eigi að kaupa landið svo það hefði stjórn á því hvernig uppbygging fari þar fram.

Björn Ingi kveðst hafa rætt málefni Jökulsárlóns við bæði ráðuneyti og þingmenn Suðurlandskjördæmis undanfarin ár. „Við höfum átt í samskipti við ríkið og menn hafa þar velt fyrir sér hvort þetta gæti verið ein leið út úr þessu máli,“ segir hann. „Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en ófremdarástand, þegar maður er með 300.000 gesti og getur ekki byggt upp almennilega aðstöðu eins og klósett og þess háttar."

Hann kveðst ekki merkja annað en menn telji æskilegt að eignarhald á þessari náttúruperlu sé á opinberri eigu. „Það er þó ekkert skilyrði af hálfu sveitarfélagsins, svo framarlega sem uppbyggingin fer fram á grunni þess skipulags sem búið er að fá samþykki.“

Málefni Jökulsárlóns var til umræðu í bæjarráði Hornafjarðarbæjar sl. mánudag og var bæjarstjóranum þá falið að senda formlegt bréf til Fjármála- og Umhverfisráðuneytisins um málið. „Og það er farið,“ segir Björn Ingi, en kveður enginn svör hafa borist enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka