250 manns særðust þegar að lögregla beitti táragasi og blindsprengjum á flóttamenn sem reyndu að komast yfir landamæri Grikklands og Makedóníu á sunnudaginn. Íslenskur sjálfboðaliði sem er á svæðinu lýsir upplifun fólks á svæðinu á heimasíðu Akkeris í dag.
„Þykkt lag af táragasi liggur yfir svæðinu. Skothvellir heyrast úr fjarska, hljóðsprengjur springa með gífurlegum látum og kúlum rignir yfir búðirnar. Börn sem fullorðnir öskra af sársauka og örvæntingu. Fólk hnígur niður meðvitundarlaust, sumir eru særðir eftir að hafa fengið í sig kúlu eða táragashylki, aðrir eftir að hafa andað að sér of stórum skammti af táragasi.
Fólk ryðst í gegnum búðirnar í leit að súrefni, fullorðnir, börn og tjöld verða undir flóðbylgju fólks sem á fótum sínum fjör að launa,“ skrifar Þórunn Ólafsdóttir til þess að reyna að lýsa upplifunum fólks af árásum lögreglu.
Þórunn er nú stödd í Idomeni þar sem 11. 000 flóttamenn dvelja.
Í grein Þórunnar kemur fram að á svæðinu séu m.a. nýfædd börn sem urðu fyrir gasinu. „Ungbörn missa meðvitund, fólk hóstar, ælir og hnígur niður. Þyrlur sveima yfir svæðinu og herinn heldur áfram að skjóta. Heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki undan og almennir sjálfboðaliðar og flóttafólk sinna slösuðum. Fólk er borið á teppum í átt að eina sjúkraskýlinu sem er eftir.“
Í grein Þórunnar kemur fram að UNHCR, flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og önnur hjálparsamtök hafi flúið af vettvangi og aðeins Læknar án landamæra, aktivistar og sjálfboðaliðar eru eftir, auk grísku lögreglunnar sem stendur aðgerðalaus og fylgist með en árásin stóð yfir í sex klukkustundir.
Í greininni lýsir Þórunn því jafnframt hversu erfitt það er fyrir flóttafólkið að sækja um hæli í Grikklandi.
„Eins og staðan er núna hefur fólk aðeins þann möguleika að sækja um hæli í Grikklandi. Grikkland metur svo hvort umsækjandinn verði sendur áfram til einhvers af þeim Evrópulöndum sem hafa skuldbundið sig til að taka við fólki frá Grikklandi,“ skrifar Þórunn og bætir við að niðurstaða slíks mats ræðst yfirleitt af tengslum við ákveðið land.
Ef fólk á maka eða börn undir lögaldri í öðru Evrópulandi og sækir um fjölskyldusameiningu er umsókn þess tekin til meðferðar í viðkomandi landi. Þá geta Evrópuríkin sjálf haft heilmikið að segja, t.d. geta stjórnvöld vel ákveðið að sækja hóp fólks og veita vernd. Aðrar ástæður varða oft viðkvæmustu hópa flóttafólks, svo sem fylgdarlaus börn, fólk sem stríðir við veikindi og önnur sérstök tilfelli.
„Þetta hljómar alls ekki svo illa á blaði,“ skrifar Þórunn. „En raunveruleikinn er því miður öllu grimmari. Eina leiðin fyrir flóttafólk til að sækja um hæli er að hafa samband við gríska stofnun sem sér um meðferð hælisumsókna. Eina leiðin til að hafa samband við stofnunina er að hringja í gegnum Skype. Og haldið ykkur nú fast – sú þjónusta er í boði í klukkutíma á dag, alla virka daga!“
Að sögn Þórunnar hefur enginn sem hún hefur hitt í Idomeni náð í gegn á Skype. Telur hún að orsökin sé fyrst og fremst gríðarlegt álag á kerfið, en í flestum flóttamannabúðum ræður nettengingin ekki við Skype. Þá hafa aðeins þeir sem eru með aðgang að tölvu eða snjallsíma möguleika til þess að komast á Skype.
„Fullt af fólki hefur engan möguleika á að komast í netsamband,“ skrifar Þórunn.
Bætir hún við að í Grikklandi séu yfir 50.000 einstaklingar sem eiga rétt á því að sækja þar um hæli.
„Þangað til Evrópa tekur af skarið og aðstoðar Grikki við þetta risavaxna verkefni sem landið ræður engan veginn við, neyðist fólk til að búa við óbærileg skilyrði í flóttamannabúðum víðsvegar um landið,“ skrifar Þórunn.
Að mati Þórunnar þurfa stjórnvöld í Evrópu að láta í sér heyra og fordæma aðgerðir makedónsku lögreglunnar. Þá þarf einnig að vinna hraðar til að aðstoða fólkið.
„Áhyggjur margra Evrópubúa beinast að því að við getum ekki aðstoðað fólk nógu vel og nógu fljótt. Að við eigum ekki nóg af fagfólki og að við eigum ekki nóg að gefa. Svo á meðan flóttafólk bíður þess að við hugsum málið, sefur það í drullupolli, andar að sér eitruðum reyk sem leggur frá plastinu sem það brennir til að halda á sér hita, líður næringarskort, veikist vegna óhreinlætis og nú síðast – vaknar upp við þá martröð að í Evrópu eru þau líka skotmörk. „Í gær var þetta eins og í Sýrlandi“, sagði ungur maður í búðunum við mig daginn eftir árásina,“ skrifar Þórunn en á fjórða tug þurftu áfallahjálp eftir atburði sunnudagsins og mögulega er tala þeirra sem hefðu þurft á slíkri aðstoð að halda en fengu ekki mun hærri. Á fjórða hundrað þurftu læknisaðstoð, þar af börn sem hlutu höfuðmeiðsli vegna gúmmíkúlna sem herinn skaut þau með.
„Það er lágmark að Evrópa láti í sér heyra og fordæmi harkalega árásirnar. Nei, annars. Lágmarkið er að brjóta meðvirknina með samningum ESB við Tyrkland og taka á móti flóttafólki frá Grikklandi,“ skrifar Þórunn.
Fréttaveitan AFP segir frá því í dag að makedónsk lögregla hefði aftur beitt táragasi á flóttamenn sem mótmæltu við landamærin. Um 100 flóttamenn breiddu úr sér á um 100 metra svæði þar sem þeir toguðu í gaddavírinn sem aðskilur löndin tvö. Þeir hættu þó fljótlega þegar að tvær sveitir óeirðarlögreglu frá Grikklandi kom á staðinn. Óeirðarsveitin kom sér fyrir milli flóttamannanna og girðingarinnar.
Makedóníumenn hafa sakað Grikki um að hafa mistekist við að stöðva um 3.000 manns sem komust ólöglega inn í landið.