Fjárlög ekki afgreidd fyrir kosningar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki útilokað að hægt verði að leggja fram fjárlagafrumvarp vegna næsta árs í september. Fjárlagagerð væri þegar í undirbúningi í ráðuneytum og venjulega lyki þeirri vinnu að mestu í júní. Það væri hægt að gera það. 

Þar með væri tryggt að stjórnkerfið allt væri tilbúið fyrir næsta fjárlagaár. Eftir fyrirhugaðar kosningar næstar haust gæti ný ríkisstjórn þá komið sínum áherslum í fjárlagafrumvarpið áður en það yrði afgreitt. Með þessu væri tryggt að einhver stjórnfesta væri í landinu þrátt fyrir að endunýja þyrfti umboð þingsins á fjögurra ára fresti eða oftar líkt og í öðrum löndum.

Þannig væri engin áform uppi um að samþykkja ný fjárlög vegna næsta árs fyrir þingkosningar sem fyrirhugaðar væru í haust. Brást hann þar við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þingmanni Pírata. Lýsti hún áhyggjum af því ef til stæði að afgreiða fjárlög fyrir kosningar. Spurði hún ennfremur hvort hægt væri að treysta því að gengið yrði til kosninga í haust. 

„Það hefur verið nefnt að kjósa í haust, já það er stefnt að því. En það skiptir máli að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig hér á þinginu og það sé einhver framgangur á þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir,“ sagði Bjarni.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert