Bardagakappinn Gunnar Nelson er annar tveggja eigenda fasteignar á Kleifarvegi 6 sem stóðu fyrir því að stór ösp var felld í óþökk nágranna sem búa á Laugarásvegi 3. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að Richard Kristinsson, annar eigenda húss að Laugarásvegi 3 í Reykjavík, hefði kært nágrannana, sem eru þeir Gunnar Nelson og Kristófer Ólafsson, til lögreglu.
Gunnar á efri hæð hússins á Kleifarvegi og er lóð hússins samliggjandi umræddri lóð við Laugarásveg 3. Gunnar vildi ekki tjá sig um málið við Morgunblaðið þegar eftir því var leitað. Haraldur Dean Nelson, faðir hans, hefur eftir Gunnari að rætur umrædds trés hafi „stútað hjá þeim skolplögnum.“ „Þeir töluðu við þessa menn (eigendur hússins við Laugarásveg). Einn þeirra var eitthvað efins og ætlaði að hafa samband ef þeir mættu ekki gera þetta,“ segir Haraldur og bætir við að það hafi aldrei verið gert.
Frétt mbl.is: Nágranni felldi tré í óþökk eigendanna
Kristófer og Gunnar fengu síðan fagmenn til þess að fella tréð.
Umrædd samskipti þeirra við íbúa að Laugarásvegi fóru fram síðastliðið haust, síðan snjóaði og því var beðið til vors með að fella tréð. „Síðast þegar ég vissi þá var allt í standi og maðurinn sem þú vitnar í (Richard), þá fannst honum þetta bara í lagi,“ segir Kristófer. Hann segir að eftir samræður hafi skilningur Gunnars og Kristófers verið sá að þeir hefðu heimild til að fella tréð. „Þetta tré var fellt en við héldum að það væri ekki í óþökk neins,“ segir Kristófer. „Við felldum tvö önnur tré í garðinum okkar. Við buðum honum að fella hans tré líka. Hann spurði hvað það myndi kosta hann og við sögðu honum að við myndum bara gera það fyrir hann. Þá sagði hann: Það er flott, mér er alveg sama,“ segir Kristófer.
Hann segir að líkur séu á að um misskilning hafi verið að ræða. „Við erum ekki að fara að fella tré í óþökk nágranna viljandi,“ segir Kristófer.
Sigurður Ólafsson, sem einnig er eigandi íbúðar í húsinu á Laugarásvegi 3 segir að hann hafi ekki haft hugmynd um að Gunnar væri einn þeirra sem hann væri að kæra. „Ég var bara að kæra þá sem stóðu að þessu,“ segir Sigurður. Að sögn hans er tómt mál að tala um misskilning. „Hann (Kristófer) ræddi við okkur og við (Richard) sögðum báðir að það þyrfti að athuga hvort það mætti gera þetta,“ segir Sigurður.