Meint brot skipta hundruðum milljóna

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meint stórfelld skattalaga- og bókhaldsbrot hjá nokkrum verktakafyrirtækjum sem embætti héraðssaksóknara réðst til húsleitar hjá á þriðjudaginn snúast um hundruð milljóna og teygja sig nokkur ár aftur í tímann. Þetta staðfestir Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við mbl.is.

Farið var í 11 húsleitir og að sögn Ólafs lagt hald á slatta af gögnum og einhverja fjármuni. Þá fannst einnig ein kannabisræktun og var hald lagt á um 100 plöntur.

Aðgerðir hófust snemma á þriðjudagsmorguninn en undirbúningur hafði staðið yfir hjá embættinu í nokkrar vikur. Ólafur segir að uppruna málsins megi rekja til skoðunar Skattrannsóknarstjóra. Lögreglumenn frá héraðssaksóknara, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Vesturlandi og embættismenn frá skattrannsóknarstjóra tóku þátt í aðgerðunum. Samtals um 40 manns.

Fimm einstaklingar voru hnepptir í gæsluvarðhald sem rennur út næstkomandi þriðjudag.

Ólafur segir að um nokkurn fjölda félaga sé að ræða. Aðspurður hvort tenging sé á milli þeirra segir hann að einhverjar eignatengingar séu til staðar og sumir tengist fleiri en einu félagi. Ekki sé þó um að ræða alltaf sama fólkið í öllum félögunum. „Það er nokkur hópur undir,“ segir hann.

Um er að ræða nokkur verktakafyrirtæki sem eru öll í …
Um er að ræða nokkur verktakafyrirtæki sem eru öll í rekstri og með einhvern fjölda starfsmanna. AFP

Málið teygir sig nokkur ár aftur í tímann og segir Ólafur að talið sé að meint brot séu öll tengd saman.

Ekki er um að ræða stærstu verktakafyrirtæki landsins, en Ólafur segir að um sé að ræða raunveruleg verktakafyrirtæki en ekki pappírs- eða skúffufélög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert