Ásmundur Einar Daðason og Haraldur Einarsson, þingmenn Framsóknar, hafa óskað eftir sameiginlegum fundi Fjárlaganefndar og Umhverfisnefndar „hið fyrsta til að ræða þá staðreynd að Jökulsárlón, ein helsta náttúruperla Íslands, sé í uppboðsferli.“
Í erindi til forystu nefndanna, Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Höskuldar Þórs Þórhallssonar og Katrínar Júlíusdóttur segir að eins og fram hafir komið í fjölmiðlum sé uppboðsferli hafið á Jökulsárlóni og að því ljúki innan fjögurra vikna. Einnig hafi komið fram að sveitarfélagið Hornafjörður hafi sent erindi til Fjármálaráðuneytis og Umhverfisráðuneytis og óskað eftir aðstoð í málinu.
„Það er mat undirritaðra að stjórnvöld verði að leita allra leiða til að grípa inní þetta mál og því sé mikilvægt að þetta sé tekið upp á vettvangi Alþingis,“ segir í erindi þeirra Ásmunar og Haraldar.
„Það er ósk undirritaðra að á fundinn verði boðaðir fulltrúar sveitarfélagsins Hornafjarðar, fulltrúar fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis, fulltrúi Sýslumanns á Suðurlandi, fulltrúar helstu hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu auk annarra er málið varða.“