Telur ekki ástæðu til að skoða málið

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Skjáskot af Alþingi.is

Embætti umboðsmanns Alþingis hefur ekki talið ástæðu til þess að taka mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna þeirra upplýsinga sem fram koma um hann í svonefndum Panamaskjölum til skoðunar að eigin frumkvæði eftir að hafa kynnt sér málið.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um aflandsfélög og hæfi ráðherra. Tryggvi sagði hæfisreglur stjórnsýslulaga aðeins eiga við þegar teknar væru stjórnvaldsákvarðanir sem snertu réttindi borgaranna en ekki til að mynda setningu reglugerða.

Tryggvi sagði vandann snúast um það að hvaða marki hæfisreglur giltu um pólitíska stefnumótun. Til dæmis varðandi lagafrumvörp sem lögð væru fram á Alþingi. Ekki giltu neinar óskráðar hæfisreglur um þingmenn hér á landi. Eina vanhæfisreglan í lögum snerist um það þingmenn megi ekki greiða atkvæði um fjárútlát til þeirra sjálfra. Hæfisreglum væri fyrst og fremst ætlað að vernda réttindi þeirra sem ákvarðanir beindust að.

Tryggvi sagðist ekki geta séð að stjórnvöld, þar með taldir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hefðu í tengslum við afnám fjármagnshafta tekið ákvarðanir um greiðslur til kröfuhafa. Hins vegar snerist málið einnig um traust almennings og þá vaknaði sú spurning hvort skoða þyrfti hvort skerpa þyrfti á reglum og ganga lengra þegar kæmi að skráningu hagsmuna. Það væri hlutverk Alþingis og umboðsmanns þingsins að skoða það.

Tryggvi sagði hins vegar halda því opnu að taka málið til frekari skoðunar ef nýjar upplýsingar kæmu fram eða óskað yrði eftir því sérstaklega af hálfu Alþingis að það yrði gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert