Hún heitir Kate og er 21 árs, hún er sú eina sem var skráð í Reykjavík í gær. Þær voru fjórar daginn áður: Ana, Harra, Nikolle og Karinna. Þessar stúlkur selja sig allar í vændi á alþjóðlegri vefsíðu.
Þær eru staddar í Reykjavík núna en á síðunni er hægt að auglýsa vændisþjónustu í ákveðnum borgum heimsins eftir dögum. Kate gefur upp símanúmer og tölvupóstfang og þá eru nákvæmar útlitslýsingar á „vörunni"; hárlitur er dökkur, augnlitur blár, hún er rökuð og reykir en er ekki með sílikon né húðflúr. Klukkutími með henni kostar 50.000 kr., ein klukkustund í viðbót er á 35.000 kr.
Eins og sagði frá í Morgunblaðinu í gær hafa umsvif vændis á Íslandi aukist undanfarið m.a vegna tilkomu fleiri ferðamanna. Vændissalan fer að mestu leyti fram í gegnum vefsíður og samfélagsmiðla. Oftast eru þetta erlendar konur sem koma hingað tímabundið þó íslenskar konur megi finna inn á milli.
Athygli vekur að stúlkurnar fjórar sem auglýstu þjónustu sína á þriðjudaginn eru allar með svipað símanúmer og sama lag hljómar hjá öllum þegar hringt er. Sú fyrsta sem blaðamaður hringir í svarar, hún talar ensku með hreim og segist vera stödd á Íslandi en þegar spurt er frekar skellir hún á. Ekki svarar í neinu hinna númeranna eftir það, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.