Forstjóri Ístaks lýsir þungum áhyggjum af meintri notkun verktakafyrirtækja á vinnuafli sem sótt er í gegnum útlendar starfsmannaleigur.
Segir hann að brögð séu að því að vinnuafl sem komi til landsins í gegnum erlendar starfsmannaleigur sé munstrað upp sem undirverktakar við stórverkefni. Þannig geti verktakar undirboðið aðra á markaði og náð stórum verkefnum til sín, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.
Í gögnum sem Morgunblaðið hefur undir höndum kemur fram að eitt og sama verktakafyrirtækið, LNS Saga, sem er í eigu norska verktakafyrirtækisins Leonhard Nilsen & Sønner AS, hefur hreppt nokkur af allra stærstu verkefnunum sem boðin hafa verið út í landinu á undanförnum misserum. Það á meðal annars við um stórframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar við Þeistareyki og byggingu Nýja Landspítalans á nýju sjúkrahóteli við spítalann.