Lögreglan rannsakar nú hvort verktakar sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna stórfelldra auðgunarbrota hafi gerst sekir um mansal.
Fréttatíminn greinir frá þessu en í umfjöllun blaðsins kemur fram að lögreglumenn hafi verið slegnir þegar þeir sáu hvar sumir verkamennirnir frá Austur-Evrópu bjuggu. Sumsstaðar voru aðstæður nöturlegar, raflagnir í ólagi sem og hiti og salernisaðstaða.
Meint stórfelld skattalaga- og bókhaldsbrot hjá nokkrum verktakafyrirtækjum sem embætti héraðssaksóknara réðst til húsleitar hjá á þriðjudaginn snúast um hundruð milljóna og teygja sig nokkur ár aftur í tímann. Þetta staðfesti Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við mbl.is.
Alls voru í níu handteknir á þriðjudaginn og tóku 40 manns frá fjórum embættum þátt í aðgerðunum. Húsleitirnar voru gerðar á 11 stöðum á suðvesturhorninu.
Lagt var hald á bókhaldsgögn og reiðufé. Upphaf aðgerðanna má rekja til rannsóknar embættis Skattrannsóknarstjóra á ætluðum skattalagabrotum fyrirtækja í byggingariðnaði.
Frétt mbl.is: Meint brot skipta hundruðum milljóna
Frétt mbl.is: Fimm hnepptir í gæsluvarðhald