Rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintum brotum verktaka á stórfelldum auðgunarbrotum nær til 5-10 félaga. Er í skoðun hvort og þá hvernig samverknaður er á milli félaganna, en meðal þeirra fyrirtækja sem eru til skoðunar eru verktakafyrirtækin Kraftbindingar og Brotafl. Þetta hefur mbl.is eftir traustum heimildum, en Fréttatíminn greindi einnig frá málinu.
Greint var frá því fyrr í dag að einnig sé til skoðunar hvort um hafi verið að ræða mansal, en aðbúnaður verkamanna frá Austur-Evrópu sem störfuðu hjá fyrirtækinu var nöturlegur.
Eigandi Brotafls er tengdafaðir annars eiganda Kraftbindinga, en yfirvöld skoða meint skattabrot félaganna og annarra sem talin eru tengjast þeim.
Upphaflega voru níu handteknir í aðgerðum lögreglunnar, en á þriðjudaginn voru fimm þeirra hnepptir í gæsluvarðhald.
Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara í gær nema meint brot hundruðum milljóna króna.
Eigandi Kraftbindinga sem tengdur er Brotafli hefur áður komið við sögu lögreglu og var meðal annars dæmdur ásamt tveimur öðrum árið 2012 fyrir ræktun á 436 kannabisplöntum.