Fé sett í úttekt á skattkerfinu

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekin var ákvörðun um það á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að leggja 13 milljónir króna af ráðstöfunarfé stjórnarinnar í úttekt á skattkerfinu sem Samráðsvettvangur um aukna hagsæld stendur nú að. Tillaga þess efnis var lögð fram af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármála - og efnahagsráðherra.

„Samráðsvettvangi um aukna hagsæld var komið á fót í ársbyrjun 2013 til að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Í vettvangnum sitja formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum. Vorið 2013 voru kynntar ítarlegar tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangsins á sviði almennrar hagstjórnar, innlenda þjónustugeirans, hins opinbera, auðlindageirans og alþjóðageirans. Meirihluti þessara tillagna eru í vinnslu eða langt komnar í stjórnkerfinu eða annars staðar í hagkerfinu,“ segir í fréttatilkynningu.

Ennfremur kemur fram að á fundi sínum 13. janúar hafi Samráðsvettvangurinn samþykkt að hefja vinnu við úttekt á skattkerfinu. „Við slíka úttekt væru sömu viðmið höfð að leiðarljósi og í vinnu verkefnisstjórnar frá árinu 2013. Hugsað væri til lengri tíma, fyrirliggjandi efni nýtt, sameiginlegar áherslur fundnar og breið sjónarmið tryggð í allri vinnu. Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins verði tilbúnar í lok maí nk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert