Fasteignafélagið Eik hefur hafið þróun á fasteign félagsins að Suðurlandsbraut 8. Í dag var undirritaður leigusamningur við Fjarskipti og ætlar Vodafone að flytja höfuðstöðvar sínar þangað. Stefnt er að afhendingu húsnæðisins í áföngum fyrri hluta næsta árs.
Húsnæðið hefur áður hýst Fálkann, er það nú um 3.800 fermetrar að stærð á þremur hæðum en til stendur að byggja þrjár hæðir ofan á núverandi húsnæði.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Eik og Fjarskiptum til fjölmiðla segir að vandað verði til uppbyggingarinnar í takt við nútíma þarfir en eins verði tekið tillit til upphaflegra markmiða arkitekts hússins. Þá verður byggt bílastæðahús á þremur hæðum sunnan við húsið sem verður sameiginlegt bílastæði Suðurlandsbrautar 8 og 10.
Vodafone hafnar því alfarið tilkynning félagsins til Kauphallar Íslands fyrr í dag vegna nýrra höfuðstöðva fyrirtækisins sé liður í einhvers konar samningatækni í viðræðum við Reginn. Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir að Fjarskipti sé skráð félag á markaði og því beri félaginu að upplýsa markaðinn um svona hreyfingar. „Við erum ekkert að nýta þetta form í öðrum tilgangi,“ segir hún.
Frétt mbl.is: „Skrýtin samningatækni Vodafone“
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að tilkynning Vodafone hafi verið mjög skrýtin en í tilkynningunni sagðist Vodafone ekki gera ráð fyrir að til greiðslu kostnaðar vegna leiguloka muni koma. Það sé vegna galla og skorts á viðhaldi Regins á húsnæði Vodafone í Skútuvogi.
Gunnhildur Ásta segir Vodafone standa við yfirlýsinguna sem birtist „og það má benda á að það sé ekki að ástæðulausu að við fluttum sölu- og þjónustusvið Vodafone í Ármúla úr Skútuvogi skömmu fyrir jól,“ segir hún og bætir við að höfuðstöðvar félagsins hafi þannig verið á tveimur stöðum síðan þá. „Það leikur sér ekkert fyrirtæki að slíku,“ bætir hún við í lokin.