Landsstjórn Framsóknarflokksins ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að halda vorfund miðstjórnar flokksins um mánaðarmótin maí/júní þegar formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur snúið aftur úr leyfi „og haft tækifæri til að hitta flokksfélögin til að skýra mál sitt,“ skrifar Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra á Facebook-síðu sína.
Sigmundur Davíð fór í frí fljótlega eftir að hann sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar uppljóstrana úr Panama-skjölunum um aflandsfélag hans.
Miðstjórn ákveður hvenær flokksþing fer fram. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum, sagði Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í fréttum Bylgjunnar í hádeginu. Sagði hann því ekkert ákveðið um hvort eða hvenær næstu formannskosningar fara fram. Boðað hefur verið til Alþingiskosninga í haust.
Hjálmar Bogi Hafliðason hefur tekið sæti Sigmundar á Alþingi á meðan hann er í leyfi.