Kristján Guy Burgess, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að verið sé að reyna að varpa upp sem mestum reyk með því að gera eignarhald á huldufélaginu sem á húsnæðið að Hallveigarstíg 1 sem Samfylkingin leigir tortryggilegt. Spurður í Vikulokunum á Rás 2 um eigendur félagsins sem á húsnæðið sem Samfylkingin leigir segist Kristján Guy ekki þekkja það nákvæmlega.
Samkvæmt ársreikningi Alþýðuhúss Reykjavíkur fyrir árið 2014 eru félögin Fjölnir og Fjalar með erlendar kennitölur en félögin eiga hvort um sig um 40% hlut í Alþýðuhúsi Reykjavíkur, líkt og fram hefur komið í fréttum Morgunblaðsins. Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig er gestur í Vikulokunum, segir félögin hafa fylgt húsnæði Samfylkingar og forverum stjórnmálahreyfingarinnar þar áður.
Sagði Friðjón Óttar Ingvarsson, hrl. og stjórnarmann í Alþýðuhúsi Reykjavíkur, vera fyrrverandi miðstjórnarmann í Alþýðuflokknum og gaf hann því lítið fyrir skýringar Kristjáns Guy um að félagið væri ótengt Samfylkingunni líkt og Kristján hélt fram.
Kristján Guy sagði þá félagið óháð flokknum í sambandi um lög um stjórnmálasamtök. Hann segir að árið 2004 hafi verið gerður leigusamningur til 15 ára en eftir kosningatapið 2013 hafi þurft að semja á nýjan leik og var þá gerður leigusamningur til sex ára. Hann segist hafa orð eigenda hússins að félögin séu ekki skráð á Tortola. „Ég hef orð þessara manna og hef ekki ástæðu til að rengja þau.“
Fréttir Morgunblaðsins um málið:
Sverja af sér tengsl við eigendur