Björgunarsveitarmenn og starfsmenn Vegagerðarinnar fara nú fyrir langri lest bíla yfir Holtavörðuheiði. Um sextíu bílar eru líklega í lestinni, fullir af fólki sem beðið hefur í Staðarskála í kvöld eftir að komast suður yfir heiðina.
Björgunarsveitirnar og Vegagerðin munu svo fylgja þeim sem bíða sunnan heiðarinnar yfir hana síðar í kvöld.
Slæmt skyggni er á heiðinni og hún er ekki formlega opin eins og stendur.
„Þetta eru bílahópar, sem bílar frá Vegagerðinni fara fyrir og á eftir og inn á milli eru bílar frá björgunarsveitunum,“ segir Guðmundur Sigurðsson, starfsmaður Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. Hann segir að veðrið hafi heldur lægt en þó sé ekki búið að opna heiðina fyrir almennri umferð eins og er.
Hér er hægt að fylgjast með nýjustu fréttum af færð.
Búist er við talsverðri eða mikilli snjókomu norðaustantil á landinu fram á nótt. Búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) í flestum landshlutum, einkum suðaustan- og austanlands í kvöld. Spáð er vindhviðum um eða yfir 40 m/s sunnan undir Vatnajökli í kvöld með sandfoki.